141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið í býsna langan tíma á vettvangi Alþingis að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið hjá stjórnlagaráði og þjóðinni til skoðunar. Ég geri því ráð fyrir að það sé fyrst og fremst Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem á að skoða það og meta þá niðurstöðu sem verður af þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég ætla ekki að vera með neinar getgátur um það hvað þá skeður ef niðurstaðan verður á þann veg sem manni heyrist nú helst að hv. þingmaður óskar, þ.e. að þær tillögur sem koma frá stjórnlagaráði, sem hefur mjög breiða skírskotun í samfélaginu, verði felldar.

Hv. þingmaður vill greinilega loka þetta mál hér inni í Alþingi, láta Alþingi eitt um það að ganga frá nýrri stjórnarskrá fyrir fólkið. Ég er bara gersamlega ósammála hv. þingmanni. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég er búin að sitja á þingi töluvert lengur en hv. þingmaður og ég hef oft farið í gegnum stjórnarskrárumræður og árið 1995 lagði ég til að (Forseti hringir.) skipað yrði stjórnlagaþing vegna þess að ég var gersamlega orðin uppgefin á því að þingið gæti ekki tekið á því máli og ég er sannfærð um að það mun ekki geta orðið nema með aðstoð fólksins (Forseti hringir.) og valdið á að vera hjá fólkinu í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)