141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Við getum auðvitað aldrei komið algjörlega í veg fyrir að einhver manneskja ráði yfir annarri manneskju. Nefndin fékk einmitt umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands þar sem bent er á að víða um heim sé algengt að fjölskyldufaðirinn mæti og ætli að kjósa fyrir alla fjölskylduna. Þetta er ekki vandamál sem einskorðast við Ísland eða fatlað fólk. Hreint ekki.

Ég held að sú lausn sem innanríkisráðuneytið leggur til með frumvarpinu, að fatlaði einstaklingurinn sem ætlar að nýta kjörrétt sinn þurfi að greina frá því með skýrum hætti án aðstoðarmanns síns, sé góð. Einnig ætti sá eiðstafur sem aðstoðarmaðurinn þarf að skrifa undir að verða til þess að hann átti sig á því hvað þetta er alvarlegt mál. Og ef hinn fatlaði getur ekki tjáð sig skýrt þarf hann að leita til réttargæslumanns fatlaðra sem á að gæta réttar hans og getur gefið honum vottorð um að tiltekinn aðstoðarmaður megi aðstoða viðkomandi við að kjósa.