141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

vopn, sprengiefni og skoteldar.

183. mál
[17:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vopn, sprengiefni og skotelda. Hér er um að ræða heildarendurskoðun á gildandi vopnalögum sem verið hafa við lýði í 14 ár. Reynt hefur á ýmis atriði í túlkun laganna og tækni hefur fleygt fram, þjóðfélagið hefur tekið margvíslegum breytingum, jafnframt alþjóðlegt samstarf sem þessu tengist, þannig að það er ærið tilefni til að taka lagabálkinn til endurskoðunar.

Frumvarpið á sér langa sögu. Árið 2008 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra nefnd til að endurskoða vopnalögin og skilaði nefndin frumvarpi árið 2009 í hendur dómsmálaráðuneytisins. Það frumvarp sem ég mæli fyrir hér er að uppistöðu afurð þeirrar vinnu. Það er ástæða til að rekja söguna, en frumvarpið sem nú er mælt fyrir er talsvert ítarlegra en gildandi löggjöf.

Í II. kafla lagafrumvarpsins er gerð grein fyrir reglum er varða skotvopn og skotfæri, en með frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á skilyrðum fyrir veitingu leyfis til framleiðslu, innflutnings og verslunar með skotvopn og skotfæri. Í frumvarpinu er mælt fyrir um ákvæði um skotvopn og skotfæri sem miða að því að koma til móts við bókun Sameinuðu þjóðanna um ólöglega framleiðslu og dreifingu á skotvopnum, aukahlutum þeirra og skotfærum. Nefna má sem dæmi að framleiðanda verður skylt að setja auðkennisstafi, framleiðslunúmer, framleiðsluár o.fl. á skotvopnin.

Ekki eru lagðar til breytingar á þeim skotvopnum, skotfærum og búnaði sem bannaður er á hinu borgaralega sviði, ef svo má að orði komast, í gildandi lögum. Þannig verður áfram bannað að framleiða, flytja inn eða selja sjálfvirk vopn og hálfsjálfvirka riffla og skammbyssur, svo dæmi sé tekið. Undanþáguheimildir fyrir bönnuð vopn verða eftir sem áður áfram fyrir hendi og eru þær sambærilegar þeim undanþágum sem finna má í gildandi löggjöf en þó eru þær nokkuð þrengdar á ýmsum sviðum. Reynt er að sjá til þess að í þessum undanþáguheimildum séu skotveiðimönnum sem stunda skotfimi með hálfsjálfvirk vopn veittar heimildir til slíks. Frá því að frumvarpið kom upphaflega fram bárust okkur athugasemdir frá þessum aðilum og verður reynt að koma til móts við þá. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að aldurstakmark skotvopnaleyfis verði 20 ár eins og verið hefur og að leyfið gildi í 10 ár.

Ég vil nefna eitt í því samhengi og vísa til umræðu áðan um rannsóknarheimildir lögreglu, fregnir eru um að skammbyssueign hafi aukist og að þá þróun megi að einhverju leyti rekja til skipulagðra hópa sem skilgreindir eru sem brotahópar eða glæpahópar. Því er ástæða til að reyna að koma í veg fyrir vopnaeign og vopnaburð slíkra aðila. Í því samhengi er rétt að geta þess að skorður eru settar við því að fólk komi sér upp miklum vopnabúrum og hámarksfjöldi leyfðra skotvopna verður 20 skotvopn. Þó eru gefnar undanþágur ef um safn er að ræða.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um þau nýmæli að landsskrá skotvopna skuli vera tengd málaskrá lögreglu þannig að í málaskránni sjáist hvort aðili sem kærður er fyrir brot hafi leyfi samkvæmt lögunum. Enn fremur verður heimilt að veita leyfi fyrir hljóðdeyfi á stærri riffla með það að markmiði að vernda heyrn þeirra sem nota stóra riffla. Það er eitt af þeim atriðum sem breytt var við vinnslu málsins frá því að það kom fram upphaflega.

Þá er reynt að tryggja lögreglu upplýsingar um magnkaup á sprengiefni og íblöndurefni í sprengjur. Það er einnig nýtilkomið en sú breyting á frumvarpinu var sett inn eftir hryðjuverkaárásina í miðborg Óslóar í Noregi í júlí 2011 og í framhaldi af henni voru framin fjöldamorð eins og við þekkjum öll. Sérstaklega er verið að huga að níturkaupum en ammoníumnítrat er aðaluppistaðan í tilteknu sprengiefni sem notast var við í Noregi og hefur verið notað víðar. Hins vegar verður að huga að því að þorri fólks kaupir að sjálfsögðu áburð til að bera á garða og við sumarbústaði. Í slíkum tilvikum er að sjálfsögðu ekki um neitt misjafnt að ræða og mikilvægt að við gætum meðalhófs í þessu efni. Viðmiðunartalan varðandi áburðarkaup eru 500 kíló, hálft tonn.

Síðan má nefna ýmsa aðra þætti. Í frumvarpinu eru sett ákvæði um öryggi við skoteldum, að þeir þurfi að hafa tiltekna og strangari öryggisstaðla eða laga sig að strangari öryggisstöðlum en áður hefur verið. Hér erum við einfaldlega að taka upp reglur sem tengjast hinu Evrópska efnahagssvæði og við þurfum að laga okkur að því. Við erum búin að taka upp slíka skuldbindingu í hinni sameiginlegu EES-nefnd, það gerðum við í nóvember 2010 og erum að laga okkur að reglugerðunum með þessu frumvarpi.

Í V. kafla laganna er mælt fyrir um önnur vopn. Helsta breytingin sem lögð er til er að hefðbundnir bogar verði undanþegnir reglum laganna um framleiðslu, innflutning og vörslu. Það á ekki við um lásboga en þarna er aftur verið að reyna að koma til móts við íþróttamenn og skotfimi, einstaklingar sem stunda þá íþrótt með boga verða þá undanþegnir. Það er meginstefið í lögunum að reyna að koma til móts við slíkt.

Refsingar fyrir brot gegn vopnalöggjöfinni hafa verið hertar og varða nú allt að átta ára fangelsi ef um alvarlegt brot er að ræða.

Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um svigrúm fyrir skotvopnaeigendur um að aðlaga sig að nýjum reglum er varða geymslu skotvopna en þarna eru skýrari reglur en verið hafa um örugga geymslu skotvopna.

Ég vil taka það fram að með frumvarpinu fylgir ítarleg greinargerð sem er aðgengileg öllum á netinu. Ég ætla ekki að hafa framsöguræðu mína lengri en vísa í þessa greinargerð. Ég legg áherslu á að málið fái síðan vandaða og ítarlega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis en lagt er til að málið gangi til hennar að lokinni þessari umræðu.