141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

refsiaðgerðir ESB gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar.

[14:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að sendar hafi verið mótmælaorðsendingar en ég hvet hæstv. ráðherra til að láta þær fara örlítið hærra. Það er ekki nóg að þeim sé laumað yfir borðsendann. Ég endurtek spurningu mína um hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórn að mótmæla þessu formlega, þá er ég að meina formlega á áberandi hátt, ekki í formi mótmælaorðsendinga heldur þannig að skilaboðin komist hátt og skýrt, og ekki bara til þeirra sem taka við orðsendingunni heldur einnig til almennings vegna þess að þetta er ekki síst til þess að mótmæla þeim ásökunum sem á hendur okkur eru færðar um að við stundum hér ósjálfbærar veiðar.

Ég spyr að lokum hæstv. ráðherra: Hvert er sjónarmið hans? Tengist makríldeilan Evrópusambandsumsókninni? Hæstv. utanríkisráðherra útilokaði það ekki að makríldeilan tefði opnun sjávarútvegskaflans í umræðum (Forseti hringir.) í síðustu viku á meðan Timo Summa, sendiherra ESB hér á landi, situr fast við sinn keip. Hann sagði í síðustu viku að (Forseti hringir.) þessi tvö mál tengdust ekki.