141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:53]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svo sem ekki miklu bætt við það sem ég fór yfir í svarræðu minni, þetta er svo sem ekki á neinu sérstöku stigi í augnablikinu í kjölfar þess að ráðuneytin sameinuðust nýlega. Ég er kunnugur þeirri vinnu sem var í gangi í iðnaðarráðuneytinu áður þar sem menn skoðuðu stofnanir þær sem undir það ráðuneyti heyrðu og veltu þá upp möguleikunum á til dæmis einhvers konar samstarfi eða sameiningu jafnvel Byggðastofnunar eða hluta af starfsemi hennar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Síðan er það starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og Sóknaráætlun 20/20 og nú bætast við skyldir hlutir eins og AVS-sjóðurinn, sem var áður hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, eða þess vegna Framleiðnisjóður. Ég held því að það sé óumflýjanlegt að fara yfir landslagið á nýjan leik.

Þá má bæta því við að unnin hefur verið heilmikil vinna á vegum Vísinda- og tækniráðs við að skoða allt umhverfi samkeppnis- og rannsóknasjóðanna og mögulegar breytingar þar á. Það er allt í ferli og í skoðun þannig að það er svo sem meira undir ef því er að skipta og á einhverjum stað verður Byggðastofnun og útlánastarfsemi hennar, eða að minnsta kosti utanumhald um þá stöðu sem þar er núna. Stofnunin heldur utan um 16–18 milljarða eignasafn, ef ég man rétt. Einhvers staðar þarf að finna því stað og auðvitað þarf að taka afstöðu til framtíðarsýnar í þessum efnum. Hvernig styður ríkið við byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á jaðarsvæðum? Gerir það það með lánveitingum, gerir það það með styrkjum, gerir það það með því að veita ábyrgðir eða verður því einhvern veginn öðruvísi fyrir komið?

Ég er algjörlega sammála því að það er ágætistilefni og aðstæður til þess að fara núna yfir þetta svið með dálítið opnum huga en ekki er enn í gangi formlegt starf eða starfandi nefnd í þessum efnum þar sem ráðuneytið tók til starfa fyrir rúmum mánuði síðan. En innan Stjórnarráðsins er þó verið að fara yfir nokkra þætti sem tengjast mögulegum breytingum á verkaskiptingu milli ráðuneyta (Forseti hringir.) af því að enginn hefur haldið því fram að hún sé endanleg þrátt fyrir úrskurðinn sem kom núna 1. september.