141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna stendur hnífurinn í kúnni vegna þess að hér eru aðilar ekki sammála. Úr því að það á að fara að opna fyrir upplýsingar varðandi þessi mál þá falla ansi mörg fyrirtæki sem ríkið á hlutdeild í ekki undir þessi upplýsingalög.

Hér er talað um að ríkið þurfi að eiga 51% eða meira. Ég get nefnt hér dæmi eins og Farice-strenginn sem ríkið kom inn í og á hlut í og fleiri og fleiri fyrirtæki þar sem ríkið á stórra hagsmuna að gæta og eru jafnvel með ríkisábyrgð en falla ekki undir þessi upplýsingalög. Þess vegna er þetta frumvarp hálfgert lýðskrum, sérstaklega ef við skoðum ekki-greinarnar sem ég hef kallað svo, þ.e. 4. gr. og 6. gr.

Sem dæmi ætla ég að lesa hér upp úr 4. gr., með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda ekki um þinglýsingu, aðfarargerðir, kyrrsetningu, löggeymslu, lögbann, nauðungarsölu, greiðslustöðvun, nauðasamninga, gjaldþrotaskipti, skipti á dánarbúum eða önnur opinber skipti, né heldur um rannsókn sakamáls eða saksókn.

Lög þessi gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Þá gilda lög þessi ekki um upplýsingar sem trúnaður skal ríkja um samkvæmt þjóðréttarsamningum sem Ísland á aðild að.“

Gott og vel. Auðvitað gilda þessi lög ekki um þetta en að setja þetta með svo jákvæðum hætti inn í lögin sýnir vandræðagang ríkisstjórnarinnar og raunar vandræðaganginn í þessari lagasetningu.

Svo er 6. gr., gögn undanþegin upplýsingarétti, önnur ekki-grein. Þar segir, með leyfi forseta:

„Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til:

1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, upptaka eða endurrita af fundum ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna […]

2. gagna sem útbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum […]

3. bréfaskipta við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli […]

4. gagna sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa“ og svo framvegis.

Þetta frumvarp (Forseti hringir.) er ekki-frumvarp, þ.e. ekki frumvarp til upplýsinga. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta (Forseti hringir.) eitthvað sem á að auka upplýsingarétt?