141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði hér í upphafi, að sumt í frumvarpinu horfir til þess að opna á aðgang upplýsinga en í öðrum tilvikum óttast ég að verið sé að þrengja aðgang miðað við það sem nú er. Þrátt fyrir að bætur hafi orðið á þeim ákvæðum frumvarpsins sem lúta að vinnugögnum þá held ég að þar geti enn verið um að ræða ákvæði sem megi túlka með þeim hætti að það auki leynd frekar en aðgang að upplýsingum.

Mér finnst það mikið álitamál, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem sannarlega geta haft mikil áhrif á almenning og skipta verulegu máli. Ég held að í þessum efnum stöndum við alltaf frammi fyrir því að þurfa að finna ákveðið jafnvægi. Við getum verið þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir starfsemi lýðræðisþjóðfélags eða fyrir bæði stjórnsýslu og stjórnmálalíf í lýðræðisþjóðfélagi að aðgangur að upplýsingum sé greiður. Ég held að við deilum ekkert um þá meginstefnu.

Við, alla vega ég viðurkenni hins vegar nauðsyn þess að heimilt sé með ákveðnum hætti að takmarka þennan upplýsingarétt. Ég held að ákveðin ákvæði í þessu frumvarpi geti kannski gengið of langt að þessu leyti en ég fellst hins vegar alveg á þau sjónarmið sem búa að baki frumvarpinu að fyrir hendi þurfi að vera undanþáguákvæði og möguleikar til dæmis til að halda upplýsingum innan ríkisstjórnar eða innan stofnana meðan mál eru á viðkvæmu stigi eða þess háttar. Ég viðurkenni það alveg. En eins og ég segi, þetta er spurningin um að finna rétta jafnvægið, þetta er ekki svart eða hvítt. (Forseti hringir.) Þetta frumvarp er ekki svart eða hvítt, það er svona mismunandi tilbrigði af gráu og það er auðvitað verkefni okkar í nefndinni að reyna að (Forseti hringir.) komast að einhverri sæmilega balanseraðri niðurstöðu í þeim efnum.