141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:09]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum mál sem er hálfgert vandræðamál eins og fram hefur komið þar sem takast hér á hagsmunir gegnsærrar stjórnsýslu og stjórnvalda annars vegar og hins vegar leyndarhyggja þeirra sem hafa setið á þingi í áratugi og vilja ekki að upplýst verði um störf sín.

Þetta frumvarp sem kemur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er á vissan hátt framför. Talað er um að það skuli fylgja sérstakt minnisblað öllum málum sem ráðherrar bera upp í ríkisstjórn. Talað er um að dagskrá ríkisstjórnarfundar skuli gerð opinber að fundi loknum og svo er líka talað um að það megi aflétta leyndargögnum í upplýsingalögunum þegar átta ár eru liðin frá því að gögnin urðu til.

Frumvarpið á sér rætur að rekja, eins og farið var yfir áðan af hv. þm. Þráni Bertelssyni, til laga sem samþykkt voru þar sem kveðið er á um hljóðritun ríkisstjórnarfunda. Sú hljóðritun á sér aftur rætur að rekja til þess þegar var verið að fara yfir og fjalla um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og frumvarp um upplýsingalög á sínum tíma. Þá kom greinilega í ljós að það var ýmislegt athugavert við þau frumvörp og þau þurftu mikillar breytingar við og hljóðritunarákvæðið var samkomulagsatriði til að ná niðurstöðu um hvernig ætti að ljúka málinu.

Hér er aðför að hljóðritunarákvæðinu. Það er verið að henda því út og til þess keypti ríkisstjórnin álit tveggja háskólakennara eins og fram hefur komið. Það álit kemur fram á 36 blaðsíðum plús tveimur blaðsíðum frá sjálfum forsætisráðherra um það hvers konar óhæfa það er og hversu hættulegt það er og hversu vitlaust það er og hversu asnalegt það er fyrir Ísland að skrá ríkisstjórnarfundi með hljóðritunum, að skrá heimildir um störf framkvæmdarvaldsins. Þetta er náttúrlega hneisa og dapurlegt eins og fram hefur komið að menn skulu enn vera fastir í slíkri leyndarhyggju, þora ekki að koma fram sjálfir og verja hana heldur kaupa til þess sérfræðinga og fá svo alþingismenn til að flytja fyrir sig málið. En hvað um það.

Þessi hneisa á sér náttúrlega rætur í frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands sem kom fyrst fram í þinginu árið 2010. Það mál kom inn í allsherjarnefnd á sínum tíma og þótti mjög sérkennilegt vegna þess að það var lagt fram í kjölfar fjögurra skýrslna sem voru skrifaðar hér. Sú fyrsta var skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda að falli íslensku bankanna, níu binda skýrslan.

Önnur skýrsla var skýrsla þingmannanefndar Alþingis um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem var samþykkt hér 63:0.

Þriðja skýrslan var skýrsla starfshóps forsætisráðherra um úrbætur á Stjórnarráðinu og upplýsingalögum.

Fjórða skýrslan var skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem hét Samhent stjórnsýsla.

Í öllum þessum skýrslum eru lagðar til mjög ítarlegar tillögur um það hvernig á að gera breytingar á Stjórnarráði Íslands og upplýsingalögunum. Það kom svo í ljós eftir mikla yfirlegu, sérstaklega mína, í allsherjarnefnd á sínum tíma að frumvarpið um Stjórnarráð Íslands og frumvarp til upplýsingalaga voru bæði gagngert skrifuð af embættismönnum forsætisráðuneytisins til að komast fram hjá tillögunum í skýrslunum fjórum, sem var mjög alvarlegt mál að mínu mati. Frumvörpin voru samin til að komast fram hjá tillögunum í þeim skýrslum. Það var alveg greinilegt. Farið var af stað í allsherjarnefnd undir stjórn þáverandi formanns, hv. þm. Róberts Marshalls, sem lagði mikla vinnu í þetta mál að laga þau frumvörp því þau voru stórkostlega gölluð og miklir vankantar á þeim.

Frumvörpunum var breytt mjög mikið á sínum tíma og deilur voru um með hvaða hætti breytingarnar ættu að vera. Fram komu hugmyndir um að það yrði einfaldlega fylgt orðalagi sem kom fram í skýrslunum. Þar er það mjög skýrt hvað á að skrá á ríkisstjórnarfundum og með hvaða hætti Stjórnarráðið á að starfa.

Það segir meðal annars í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og kemur fram í 6. tölulið í frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að mál sem koma til umræðu og ráðið er til lykta í innra starfi ríkisstjórnarinnar komi fram með skýrum hætti í formlegum fundargerðum hennar enda er þar um að ræða einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru fyrir hönd þjóðarinnar.“

Í 7. tölulið segir:

„Í ljósi reglna sem gilda um ábyrgð ráðherra á stjórnarmálefnum, bendir nefndin á að máli geti skipt að haga ritun fundargerða með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverri þeirri athöfn sem tekin er fyrir á ráðherrafundi.“

Í 8. tölulið segir:

„Að því marki sem samráð og fundir milli oddvita ríkisstjórnar koma í reynd í stað þess að fjallað sé um mál á fundum ríkisstjórnar kann að vera rétt að huga að því að setja reglur um skráningu þess sem fram fer við slíkt samráð.“

Í 9. tölulið segir:

„Sama á við um fundi þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utanaðkomandi og þeim eru sem fulltrúum ríkisstjórnar veittar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar.“

Í 10. tölulið segir:

„Brýnt er að samdar verði samræmdar reglur um skráningu munnlegra upplýsinga um samskipti innan Stjórnarráðsins …“

Í tillögu skýrslu þingmannanefndar Alþingis um skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir, og er ítrekað í 8. tölulið frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að verulega skorti á að starfshættir innan ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana uppfylli nútímakröfur um formlega og opna stjórnsýslu.“

Í 9. tölulið segir:

„Fundargerðir ríkisstjórnar verði skráðar með skýrum hætti og þær birtar opinberlega. Samhliða fundargerðabók ríkisstjórnarfunda verði haldin sérstök trúnaðarmálabók sem notuð sé þegar rætt er um viðkvæm málefni ríkisins eða önnur mál sem lúta trúnaði.“

Þetta getur varla verið skýrara.

Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra segir meðal annars í 5. tölulið, með leyfi forseta:

„Huga þarf sérstaklega að því hvernig bæta megi samhæfingu og reglufestu í stjórnsýslu ríkisins. Í því sambandi er lagt til að gert verði átak til að bæta vinnubrögð stjórnvalda og skýra skyldur starfsmanna hins opinbera, m.a. um skráningu upplýsinga og almennt um skýrleika og aga í vinnubrögðum.“

Þetta er svo fátt eitt sé nefnt sem kemur fram í þessum skýrslum, og eins og kom fram í máli mínu áðan, var á sínum tíma að stórum hluta farið fram hjá þessum tillögum í frumvörpunum sem lögð voru fram þó að þau hafi tekið miklum framförum í meðferð allsherjarnefndar á sínum tíma. Það náðist hins vegar ekki samkomulag um með hvaða hætti fundargerðir ríkisstjórna yrðu ritaðar og þar komu fram hin ótrúlegustu sjónarmið, þar á meðal frá einum fulltrúa Samfylkingarinnar sem sagðist vera á móti því að fundargerðir væru ítarlegar heldur ættu þær að vera eitthvað sem hét snotrar í hans máli, sem var svo ekki skilgreint frekar. Vegna þessara deilna meðal annars var niðurstaðan á endanum sú að setja inn ákvæði um hljóðritanir ríkisstjórnafunda og þær hljóðritanir skyldu geymdar í 30 ár. Framkvæmdarvaldið var að sjálfsögðu óánægt með það á sínum tíma og þess vegna erum við enn þann dag í dag að þjóna framkvæmdarvaldinu með þessu frumvarpi, því miður, segi ég nú bara.

Á þeim tíma þegar verið var að afgreiða þetta sem lög frá Alþingi lögðum við í Hreyfingunni fram breytingartillögur við frumvarpið. Sú fyrri var um fundargerðir ríkisstjórnar. Í þeirri breytingartillögu segir, með leyfi forseta:

„Í fundargerðir ríkisstjórnar skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra auk þess sem greint skal frá umræðuefni, ef ekki er á því formleg niðurstaða. Haga skal fundargerð með þeim hætti að í ljós sé leitt hverjir hafa með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt stuðlað að hverju því sem tekið er fyrir á ríkisstjórnarfundi. Bókuð sé afstaða hvers ráðherra til mála.“

Þetta var breytingartillaga við 7. gr. frumvarpsins. Þessi breytingartillaga var felld af stjórnarmeirihlutanum. Ég átta mig ekki á því enn hvers vegna, í kjölfar hrunsins, fólk felldi þá breytingartillögu, nema maður vísi til þess sem kom fram í máli hv. þm. Þráins Bertelssonar áðan að þetta sé framhald á þeirri leyndarhyggju sem menn vilja viðhafa á Alþingi Íslendinga og í stjórnsýslu Íslands.

Fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld höfðu á sínum tíma upplýsingar um hvert stefndi og hvenær hrunið yrði en þögðu yfir því. Í þeirri skýrslu kom í ljós að stjórnarflokkarnir vissu í upphafi árs 2008 að hér yrði hrun eftir nokkra mánuði en þeir þögðu yfir því. Það er kannski eðlilegt að menn séu brenndir af þeim aðstæðum og þeirri hugsun hvað hefði gerst ef við hefðum þurft að upplýsa það á sínum tíma.

En við eigum að hafa lært af hruninu. Við eigum að hafa lært af leyndarhyggjunni og hvert hún leiddi okkur. Við eigum að vera búin að læra það að þegar fram líða stundir verður það verra fyrir íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál að viðhalda þeirri leyndarhyggju. Þess vegna skora ég á hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og formann hennar, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að taka það til alvarlegrar skoðunar í nefndinni, þegar þetta mál fer til hennar aftur eða ef það fer til allsherjarnefndar sem ég veit ekki hvort verður, að sú breytingartillaga sem ég las upp verði skýrt færð inn í frumvarpið til að tryggt sé að þessar fundargerðir verði ritaðar með skýrum hætti og hægt verði að átta sig á því með hvaða móti ákvarðanir í íslenskum ríkisstjórnum eru teknar. Hversu lengi á að halda leynd yfir slíkum fundargerðum er álitamál. Ég tel að rita eigi slíkar fundargerðir á þennan hátt og það eigi að birta þær ekki síðar en eftir eitt ár nema í þeim málum sem ólokið er og þeim málum sem trúnaður þarf að vera á. Ég tel að hafa eigi trúnaðarmálabók en hægt verði að koma því þannig fyrir að ríkisstjórn hvers tíma þurfi einfaldlega að rökstyðja það hvers vegna mál er trúnaðarmál og það þarf að tímasetja hvenær trúnaði af því verði aflétt svo fremi sem það sé hægt.

Það er hægt að koma í veg fyrir leyndarhyggju og okkur ber skylda til þess gagnvart samfélaginu að koma í veg fyrir leyndarhyggju stjórnvalda. Ekki síst sem alþingismenn og formenn nefnda ber okkur skylda til að gera allt sem við getum til að hafa hér sem opnasta stjórnsýslu án þess þó að hellt sé sandi í gangverk stjórnsýslunnar þannig að hún hökti of mikið vegna þess að hún fær ekki starfsfrið. Það er hin hliðin á málinu sem verður að sjálfsögðu að taka fullt tillit til.

Ég vona svo sannarlega að þessar tillögur verði teknar til athugunar, að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd velti því alvarlega fyrir sér að breyta þessu frumvarpi þannig að það megi betur fara.

Ég hef líka lagt til að fundargerðir ríkisstjórnar verði birtar örar í aðdraganda kosninga til að kjósendur í komandi kosningum viti hvað hefur verið í gangi á fundum ríkisstjórnarinnar. Það er bara eðlilegur þáttur í lýðræðisríki að kjósendur hafi hugmynd um hvað stjórnvöld hafi verið að gera og þó að það hafi áhrif á pólitískt líf einstaklinga í ríkisstjórninni þá á það að sjálfsögðu að hafa áhrif á pólitískt líf fólks. Allt sem ég geri hér inni og segi hefur áhrif á mitt pólitíska líf með einum eða öðrum hætti. Hvers vegna á það sama ekki að gilda um ráðherra í ríkisstjórn? spyr ég nú bara. (Gripið fram í: Það á að gilda.) Þess vegna er ekki síður mikilvægt að fundargerðir verði birtar örar í aðdraganda kosninga. En hver svo sem tímafresturinn verður munum við leggja fram þessa breytingartillögu og við munum líka leggja fram aftur hugsanlega breytingartillögu sem við lögðum fram varðandi starfsmenn Stjórnarráðsins. Hún er einmitt byggð beint á tillögum úr þessum skýrslum og snýr að skyldum ráðuneytisstjóra í ráðuneytum sem mér finnst mjög mikilvægt að sé til staðar en í einni skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ráðuneytisstjóri hafi rétt og/eða skyldu til að mótmæla eða koma að athugasemdum telji hann gjörðir ráðherra ekki samræmast lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum.“

Það er mjög mikilvægt að þetta skylduákvæði sé einnig í lögum vegna þess að ráðuneytisstjórar bera gríðarlega ábyrgð og þeir þurfa aðstoð við að gegna starfi sínu betur í umhverfi leyndarhyggju.

Síðan þakka ég fyrir umræðuna og vona að við náum samkomulagi um málið áður en yfir lýkur.