141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og fagna því sérstaklega að hann telur ástæðu til þess að fara sérstaklega yfir gildistöku laganna. Ég geri þá um leið þá tillögu að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. svo nefndin geti farið yfir þá hluti.

Við 1. umr. þessa máls gerði ég töluverðar athugasemdir við fjárhagslegan ávinning af sameiningu stofnana og hafði miklar efasemdir um að hann gengi eftir eins og þar er lýst. Því vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til þess að fara yfir það milli umræðna. Mér finnst skjóta svolítið skökku við að sömu hugmyndir um hvað muni sparast og hagræðast við sameiningu þessara stofnana hafa eiginlega verið uppi alveg frá því að málið var lagt fram. Síðan hefur auðvitað átt sér stað niðurskurður á viðkomandi stofnunum frá þeim tíma sem fyrst var lagt upp með. Ég tel mikilvægt að við áttum okkur á væntingunum um hverju hagræðingin muni skila þannig að við séum alveg meðvituð um það.

Þegar við ræddum málið á síðasta þingi var það hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem var formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sem mælti fyrir því og hún tók einmitt undir þau varnaðarsjónarmið að skynsamlegt væri og eðlilegt að ofmeta hugsanlega ekki þá hagræðingu og þann sparnað sem yrði við sameininguna vegna þess að það blasir auðvitað við öllum sem kynna sér málið og lesa lögin að það er ekki mikill fótur fyrir þeirri röksemdafærsla þannig að ég spyr hv. þingmann um þetta líka.