141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég byrja að fjalla um þá hluti sem ég komst ekki yfir í fyrri ræðu minni þá er umhugsunarvert það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu árið 2013 þar sem á að setja 150 millj. kr. fjárveitingu í Náttúrufræðistofnun til að kortleggja vistkerfi og fuglalíf á landsbyggðinni. Er mikil umhverfisvernd í því að keyra um allt land til að telja fugla og kortleggja vistkerfið? Það kallar auðvitað á meiri mengun og allt sem því fylgir. Þetta er áhugaverð pæling.

Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram að það er mjög mikilvægt að við færum þær starfsstöðvar sem snúa að Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og slíkum stofnunum. Þær mundu byggja upp og styðja enn frekar útibúin á landsbyggðinni en þær gera með þeim hætti sem hefur verið unnið að, að kotra niður einum og tveimur starfsmönnum í staðinn fyrir að hafa þá í glerhöllunum hér fyrir sunnan.

Það sem ég vildi koma frekar að í þessari umræðu, og náði ekki að klára í fyrri ræðu minni þegar ég fór yfir feril málsins, var að ítreka og beina því til hv. samgöngunefndar að ég hefði trú á því og lifði í voninni um að nefndin tæki ábendingum mínum af meiri jákvæðni en hingað til. Við 1. umr. þessa máls sá hv. nefnd ekki ástæðu til að fara neitt yfir þær ábendingar sem hér komu fram, en ég lifi í voninni.

Þá tel ég líka mikilvægt að biðlaunaréttur starfsmanna þessara stofnana verði skoðaður sérstaklega. Þegar fjallað var um hann í umhverfis- og samgöngunefnd þá var hann, ef ég man rétt, um 200 millj. kr. sem hefur áhrif á hagræðinguna sem mun skýrast á endanum. Ég tel mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega.

Því til viðbótar þarf að fara mjög vandlega yfir húsakosti stofnananna, hvernig hægt er að samþætta þá miðað við núverandi starfsemi. Ég beini því til hv. nefndar að fá yfirsýn yfir hvernig það er hugsað. Ef ég man rétt er eina húsnæðið sem er í eigu ríkisins húsnæði Siglingastofnunar, síðan er húsnæði í Borgartúni og húsnæði sem Vegagerðin er með og annað húsnæði þar sem Umferðarstofa er og svo koll af kolli. Það þarf auðvitað að fara mjög vandlega yfir það hvernig hægt er að samþætta þessar byggingar og hvernig menn sjá það fyrir sér. Siglingastofnun er með sérhæfða aðstöðu sem hefur verið byggð upp á þeim stað þar sem hún er og ég sé ekki fyrir mér að hún verði færð þaðan eða sá verkþáttur sem þar er unninn. Það getur verið að það sé ekki rétt en ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd að skoða sérstaklega það sem snýr að húsnæðismálum og hafa þá alveg skýr svör um það með hvaða hætti þau eiga að vera.

Töluverð umræða hefur verið á undanförnum dögum eða missirum um tölvukerfi ríkisstofnana. Í ljós kom að stofnanirnar eru með mjög mismunandi útgáfur. Það væri því æskilegt að gera sér grein fyrir því hvað kostar að breyta þeim verði það niðurstaða þingsins að halda sig við gildistöku laganna, sem ég tel reyndar mjög varhugavert vægast sagt. Við þekkjum tölurnar. Það hefur til að mynda komið fram á fundi fjárlaganefndar að kostnaður við tvö af kerfunum sem á að uppfæra í einu ráðuneytinu hljóðar upp á 2 milljarða. Þarna eru gríðarlegar upphæðir undir. Það er því er mjög mikilvægt að hv. nefnd skoði þetta sérstaklega og að þetta komi fram. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd að koma með lýsingar í nefndarálitinu á því hvernig þetta verður gert eða kalla eftir minnisblöðum sem yrðu þá fylgigögn til að það sé alveg ljóst með hvaða hætti hagræðingin eigi að nást þannig að væntingar verði um að hún geti gengið eftir, nóg verður óvissan samt. Ég minni enn og aftur á skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem kom fram að í 85% tilfella hefur þetta ekki gengið eftir vegna þeirra ábendinga sem ég er meðal annars að fara yfir og aðrir hafa gert.

Það er mikilvægt að tala ekki bara um þær skýrslur sem hafa ekki komið frá Ríkisendurskoðun heldur verður líka að taka mark á þeim sem hafa komið þaðan. Ég verð að segja það þó að þetta sé algerlega óskylt mál. Mér hefur þótt það vera umhugsunarvert eftir að ég kom inn á þing, í þann stutta tíma, hversu lítið hv. Alþingi hefur gert með ábendingar Ríkisendurskoðunar í þeim skýrslum sem þaðan hafa komið. Þær hafa verið þannig að nánast hefur verið hægt að prenta út sömu skýrsluna ár eftir ár og skipta bara um ártal því að viðbrögðin hafa ekki verið nein við mörgum alvarlegum ábendingum sem þar hafa komið fram. Það hefði betur verið tekið mark á þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun hefur komið á framfæri. Ég er hér að vitna í eina af þessum skýrslum. Ég ítreka því að það er mikilvægt að taka mark á þeim staðreyndum sem þarna koma fram. Þetta eru ekki ágiskanir, þetta eru staðreyndir.

Ég ætla að nota síðustu mínútur mínar í að fara örstutt yfir það sem ég náði ekki að gera áðan í sambandi við frekari sameiningar stofnana sem blasa við út frá mínu sjónarhorni. Í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til sem var skilað 2009 og í kafla 5.5 í svokallaðri Gíslaskýrslu var samstaða um að fara þá leið. Þetta blasir við ef við tökum til að mynda Siglingastofnun sem gefur út haffæriskírsteini og Fiskistofu sem gefur út veiðileyfi þá er hvort tveggja unnið á ákveðnum grunni sem snýr að skipaskrárnúmerum. Ég tel áhugavert að skoða akkúrat þann þátt sem snýr að þessu. Síðan getum við tekið leyfisveitingarnar sem er annar þáttur hjá Fiskistofu og eftirlit á miðunum og náttúrlega líka í landi. Þess vegna nefndi ég Landhelgisgæsluna þar sem báðar þessar stofnanir, Fiskistofa og Landhelgisgæslan, sinna eftirliti til sjós og þó að Fiskistofa geri það líka í landi er áhugavert og mikilvægt held ég að skoða hvort ekki megi ná frekari hagræðingu með því að taka þetta saman.

Því til viðbótar ætla ég að enda á þeirri ábendingu sem ég hef svo sem komið á framfæri áður og snýr að rekstri skipaflota Hafrannsóknastofnunar sem mér er algerlega ómögulegt að skilja, en það er svo sem margt sem flokkast undir það hjá mér. Þessi skiparekstur og skipaútgerð hjá Hafrannsóknastofnun kostar auðvitað ofboðslega mikla peninga. Ég tel skynsamlegra, og það þyrfti að skoða það mjög vandlega, að setja skipaflotann undir Landhelgisgæsluna. Með því væri að mínu mati hægt að ná fram hagræðingu. Það er alla vega þess vert að skoða það gaumgæfilega. Staðreyndin er sú, og þeir þekkja það sem hafa verið til sjós, að eina vikuna kemur hafrannsóknaskipið siglandi inn á miðin og er að skoða þar og svo vikuna á eftir kemur kannski skip frá Landhelgisgæslunni. Það er hægt að samþætta þetta starf miklu meira. Olían hefur ekki verið lág í verði. Rekstrarkostnaðurinn er auðvitað hár. Ég sé fullt af sóknarfærum við þetta og hvet hv. nefnd til að skoða það í meðförum málsins.

Ég vil líka beina því til hv. nefndar, svo að það komi hér fram, og held að það sé lágmarkskrafa að fyrirliggjandi séu rekstraráætlanir um hvernig skipta eigi þessu á milli þessara tveggja stofnana og eins hvernig hagræðingin eigi að fara fram milli þeirra. Það er algerlega vonlaust að það liggi ekki fyrir hver hún verður í tölum þannig að það sé alveg klárt þegar málið fer í 3. umr. Ég held að þetta sé lágmarkskrafa í ljósi þeirrar reynslu sem hefur verið á sameiningum stofnana og væntingum um sparnað og hagræðingu við sameiningu.