141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru að koma til atkvæða eftir 2. umr. tvö merkileg frumvörp, annars vegar um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og hins vegar þar á eftir um Vegagerðina, Framkvæmdastofnun samgöngumála.

Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið hingað til atkvæðagreiðslu. Forsagan er dálítið löng. Hún hófst árið 2008 með stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á þessum stofnunum í framhaldi af hinu fræga Grímseyjarferjumáli, ef svo má að orði komast, og í framhaldinu fór stýrihópur eða vinnuhópur í gang og skilaði skýrslum um málið og út úr því kom þetta frumvarp sem var fyrst lagt fram í júníbyrjun 2010. Meðgöngutíminn er sem sagt orðinn nokkuð langur.

Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að um tímamótaverk er að ræða og fagna því að það skuli vera komið til 2. umr. og atkvæðagreiðslu og trúi ekki öðru en að þingmenn styðji það sem hefur verið gert og málið fái fljóta yfirferð í 3. umr. þannig að við getum klárað það sem fyrst (Forseti hringir.) vegna þess að þessar stofnanir eiga að taka til starfa 1. janúar á næsta ári.