141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og óska honum til hamingju með það að leggja niður fóðursjóðinn. Ég tel það vera eðlilegt og hárrétt skref í ljósi þróunar og aðstæðna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga og kem inn á í ræðu minni á eftir hvaða skoðun ég hef á innflutningi, landbúnaðarvörum, tollkvótum o.fl. Það þarf miklu frjálslyndari stefnu, en það er önnur saga.

Hæstv. ráðherra er í rauninni að snúa frá vondri og greinilega rangri ákvörðun fyrirrennara síns í embætti sem Héraðsdómur hefur fellt, eins og komið hefur fram, þar sem ákvörðun fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála stangaðist berlega á við stjórnarskrá.

Ég vil gjarnan fá að vita hver það er sem mun meta það sem segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Skilyrðin sem sett eru fram í frumvarpinu miða að því að nægjanlegt magn af landbúnaðarvörum sé til staðar á innanlandsmarkaði á hverjum tíma þannig að þörfum neytenda sé fullnægt.“

Hver metur þarfir neytenda? Hver metur „nægjanlegt magn“? Verður nægjanlegt magn heimilað til þess að fullnægja þörfum neytenda? Talandi um neytendur, mun hæstv. ráðherra beita sér í þágu neytenda og þar með talið heimila landsins til þess að við horfum upp á aukna samkeppni með landbúnaðarafurðir? Það þýðir ekki að koma með þuluna um matvælaöryggið því að við sjáum hvað gerðist þegar samkeppni var aukin í grænmeti. Hvernig svöruðu íslenskir grænmetisbændur þá? Þeir svöruðu þeirri samkeppni ekki bara með sóma heldur juku þeir markaðshlutdeild sína á íslenskum markaði. Þannig svöruðu þeir aukinni samkeppni. Ég held að það sé hægt á öðrum sviðum líka.

Þetta eru fyrri spurningar mínar. Ég kem að öðrum á eftir.