141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

dómarar.

184. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Á mörgum undanförnum árum höfum við hæstv. innanríkisráðherra og þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálahreyfingar sem við höfum starfað með unnið að því að auka hlut kvenna í margvíslegu tilliti, m.a. í stjórnsýslunni, á Alþingi, í ríkisstjórn, bæði í löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Það er hins vegar nokkurt áhyggjuefni þegar menn fylgjast með þróun mála í þriðja valdþætti ríkisvaldsins, dómsvaldinu, að hlutur kvenna er þar rýr. Það eru ekki nein ný sannindi, þetta hefur verið svona um langt skeið. Spurningin er hins vegar hvort ástæða sé til að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana til að bregðast við, því að það hlýtur að vera keppikefli að dómstólar landsins endurspegli samfélagið eins og það er og þar með að hlutur kvenna í dómarastörfum sé viðunandi, sé sambærilegur og fjöldi karla, annars getum við ekki verið fullviss þess að dómstólarnir endurspegli samfélagið sem þeir starfa í.

Ég hef leyft mér á þskj. 187 að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra sem varðar þetta málefni:

1. Hver er heildarfjöldi dómara við íslenska dómstóla, annars vegar við Hæstarétt og hins vegar við héraðsdómstóla?

2. Hver er kynjaskipting dómara, annars vegar við Hæstarétt og hins vegar við héraðsdómstóla?

3. Telur ráðherra hlutfall kvenna í dómarastöðum við Hæstarétt annars vegar og við héraðsdómstóla hins vegar vera viðunandi?

4. Telur ráðherra koma til álita að grípa til sérstakra ráðstafana til að jafna hlut kynjanna í dómarastöðum, t.d. með því að beita ákvæðum 2. og 3. málsliðar 3. mgr. 4. gr. a í lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum?

Þau lagaákvæði lúta að því að á árinu 2010 voru gerðar breytingar á lögum um dómstóla sem gera það að verkum að ráðherra er nú bundinn af áliti sérstakrar hæfnisnefndar um mat á hæfni dómara í dómarastöður, en áður hafði það verið dálítið undir hælinn lagt eins og við þekkjum dæmi um frá forverum núverandi hæstv. innanríkisráðherra. Jafnframt var opnað fyrir það að ráðherra gæti borið aðra niðurstöðu en niðurstöðu hæfnisnefndar undir Alþingi ef hann teldi sérstök tilefni til.

Hvorki í nefndaráliti allsherjarnefndar né í greinargerð með frumvarpinu eru gefnar neinar vísbendingar um hvaða álitamál þarna gætu komið til skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi a.m.k. að gefa því gaum að það geti verið eðlileg ástæða að reyna að ná og auka jafnræði kynjanna í dómstólunum, að grípa til þessa ákvæðis dómstólalaganna og inni hæstv. innanríkisráðherra eftir því.