141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

tjón af fjölgun refa.

140. mál
[17:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Að mínu viti voru það mistök á sínum tíma að minnka framlög ríkisins til refaveiða en það er hins vegar fagnaðarefni, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, að nú er hagur landsins þvílíkt að vænka að búast má við að hægt verði að veita aukna fjármuni í þetta á næstunni. Því langar mig að spyrja hvort ekki sé hægt í haust að setja fjármuni inn í fjárlög sem verið er að fara yfir núna fyrir árið 2013 þannig að hægt sé að bregðast við þessum vanda.

Það er alveg ljóst að kostnaður við að halda þessum kvikindum í skefjum hefur færst mikið á hendur sveitarfélaganna, kostnaður þeirra hefur aukist til muna þar sem þau reyna að koma til móts við bændur. Kostnaður bænda hefur vitanlega ekki síður aukist alveg gríðarlega þar sem þeir tapa bústofni sínum að einhverju leyti í kjaftinn á refnum. Við höfum líka séð hvernig refurinn fer með fuglalífið. Ég minnist þess að hafa séð grein í Morgunblaðinu, m.a. eftir hv. þm. Ásmund Einar Daðason, þar sem fylgdi mynd af ref með líklega um 25 þúfutittlinga, ef ég man rétt, í kjaftinum. (Forseti hringir.) Það er því verulegt áhyggjuefni, frú forseti, að við skulum ekki standa betur að þessu en raun ber vitni.