141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðna samúð með því sjónarmiði hv. þm. Helga Hjörvars að vilja breyta Sjálfstæðisflokknum þannig að í staðinn fyrir að eiga orðastað við Sjálfstæðisflokkinn á Íslandi reyni hann að endurskilgreina hann í áttina að Mitt Romney og Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum. Ég hef samúð með þessu sjónarmiði vegna þess að staðan í stjórnmálum á Íslandi er þessi: Núverandi ríkisstjórn hefur brugðist í stærsta verkefninu sem er hagstjórnin á Íslandi. (Gripið fram í.) Hún hefur brugðist vegna þess að hér voru tækifæri til að ná miklu meiri hagvexti í íslenskt samfélag en raunin hefur orðið. Það sjáum við núna svart á hvítu í hagspá Hagstofunnar.

Virðulegi forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins bentu á að það væri möguleiki að hagkerfið á Íslandi yxi um rúmlega 4% á ári, og ekki bara að það væri möguleiki, það væri nauðsynlegt. Ríkisstjórnin sjálf skrifaði undir stöðugleikasáttmála, skrifaði undir til að styðja við yfirlýsingar um gerð kjarasamninga sem byggðu á þessum hagvexti. Það hefur ekki gengið eftir, ekki vegna þess að Alþýðusambandið hafi ekki staðið við sitt, ekki vegna þess að Samtök atvinnulífsins hafi ekki staðið við sitt — heldur vegna þess að ríkisstjórnin hefur brugðist.

Hvað þýðir þetta?

Forustumenn atvinnulífsins hafa bent á að ef þessar hagspár hefðu gengið eftir, hagspár sem ríkisstjórnin sjálf skrifaði upp á, væri íslenskt efnahagslíf 100 milljörðum stærra við árslok 2013 en stefnir í. Það þýðir í tekjum fyrir ríkissjóð allt að 30 milljarðar á ári og það er ýmislegt sem gera má með 30 milljarða þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Það er líka áhyggjuefni að á næsta ári muni 3.700 manns missa bótarétt sinn vegna þess að þeir (Forseti hringir.) hafa verið svo lengi á atvinnuleysisskrá.

Ég skil, virðulegi forseti, að hv. þm. Helgi Hjörvar vilji slást við Mitt Romney en ekki við Sjálfstæðisflokkinn á Íslandi.