141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni ákall móður sem birtist í bréfi í Fréttablaðinu í dag. Það er ákall móður til Alþingis, til menntamálanefndar Alþingis og menntamálaráðherra vegna þess að hún á þroskahamlað barn. Hún er ósátt við þá línu sem við höfum sett um að grunnskólar landsins eigi að vera skólar án aðgreiningar. Hún segir að aðgreiningin innan grunnskólanna sé sú að þau börn sem búi við þroskahömlun séu sett til hliðar. Þetta er ákall hennar um að ráðuneyti menntamála og Alþingi Íslendinga skoði valfrelsi foreldra til handa börnum sínum, hvort heldur er þeirra sem eru þroskahömluð eða þeirra sem ekki eru það, til að velja heppilega skóla fyrir börnin sín.

Fram til þessa höfum við ekki rætt það að sérskólarnir eigi aftur að líta dagsins ljós. Þeir eru fáir en það er ósk margra foreldra að hafa það val að barnið þeirra geti sótt í slíkan skóla þar sem það stendur á jafnréttisgrunni með þeim sem standa eins og það sjálft í lífinu.

Mér finnst ákall þessarar móður til okkar sem hér sitjum, til menntamálanefndar og til menntamálaráðherra þess virði að við íhugum hvort sú stefna sem við höfum lagt upp með sé rétt, að grunnskólinn eigi að vera án aðgreiningar, þar sem við höfum í mörgum skólum ekki getað veitt þeim börnum sem mesta þjónustu þurfa þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Er það ekki íhugunarefni að skoða valfrelsi foreldra (Forseti hringir.) hvað varðar sérskóla?