141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við þekkjum það og höfum margoft rætt það undanfarin ár að neytendavernd á íslenskum fjármálamarkaði er í fullkomnu skötulíki. Það hefur ekki lagað stöðuna að hræra reglulega í stjórnkerfinu, það gerir verkaskiptingu og boðleiðir enn erfiðari en verið hefur. Birtingarmyndin er gengislánin. Í þeim féll dómur og það er ótrúlegt hvað það fer lágt að eftirlitsaðilar, FME og bankarnir, og stjórnvöld komu sér saman um reiknireglu sem kom sér einstaklega illa fyrir neytendur, fólkið í landinu og sérstaklega minni fyrirtæki, og það út frá lagatexta sem er ekki með neinum hætti hægt að túlka þannig. Ég hef séð þess dæmi að fólk hefur misst fyrirtæki sín vegna þess að hér var framkvæmt í algjörri sátt bankanna, stjórnvalda og FME eftir reiknireglu með röngum hætti.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hélt að um þetta væri sátt. Ég hélt að við værum öll sammála um að hér þyrfti að bæta úr. Það kemur því nokkuð á óvart að það sem hefur kannski komið jákvætt frá stjórnarmeirihlutanum í þessu máli, eins og samþykkt á úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði sem var samþykkt 21. mars sl., er að núna fyrst, átta mánuðum eftir að það var samþykkt, sé farið að skipa nefndina sem á að skoða það. Ef þetta sýnir ekki forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar í verki veit ég ekki hvað gerir það.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta er stóralvarlegt mál, og fullkomlega óskiljanlegt (Forseti hringir.) af hverju stjórnvöld haga sér svona í þessu mikilvæga máli.