141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Hann horfir á þetta mál á breiðari grunni en mér finnst sumir aðrir gera. Auðvitað er samtenging og samlegð í þessum málum en þau eru eðlisólík. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að koma fram þessari tillögu um yfirferðina og rannsóknina á einkavæðingunni eins og sú tillaga hefur legið fyrir í nokkur þing. Við höfum ekki náð að koma henni frá á sama hátt en við skoðum alla þætti málsins alveg fram til síðustu ára.

Ég tel hins vegar að tillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sé þannig að í henni þurfi að breyta orðalagi og ákveðinni framsetningu, ekki efnislegu innihaldi eða meiningu í því hvað verið er að spyrja um og eftir hverju menn eru að kalla, heldur hvernig hún er sett fram. Ég sé ekki að hún geti með góðu móti farið með sem breytingartillaga inn í þann pakka sem við erum núna komin á lokastig með að afgreiða. Ég væri hins vegar tilbúinn að tala fyrir því sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og framsögumaður þessa máls, og hafði reyndar orð á því á fyrri stigum málsins þegar við vorum með málið til umfjöllunar, að taka það mál fyrir og afgreiða sem sjálfstæða tillögu, koma henni með hraðasta móti í gegnum nefndina og aftur inn í þingsal. Nefndin gæti flutt hana ef um það næðist full samstaða þannig að hægt yrði að afgreiða hana hér í beinu framhaldi af því máli sem við erum með núna til umræðu og tryggja að þá verði sú samfella í vinnunni að rannsóknarnefndin sem verður skipuð til starfa viti af því að þarna er önnur tillaga líka sem menn munu líta svo á að verði tekin efnislega til yfirferðar í beinu framhaldi af þeirri tillögu sem við erum að fjalla um. Ég tel að þetta sé leið sem eigi að geta náðst breið og góð samstaða um ef vilji er fyrir hendi.