141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sumir telja að nóg sé rannsakað og hér telur hv. meiri hluti þingsins að forgangsröðun sé rétt að setja fé í þetta og ég er mjög ánægður með það. Í umræðunni í gær studdi ég þessa tillögu ítarlega.

Ég vil að sjálfsögðu að það sé líka rannsakað hvað gerðist eftir hrun, að þetta sé ein samfella sem menn rannsaki og tekið var undir það af þeim sem mæltu hér í gær. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á það. Í trausti þess að þau heilindi haldi áfram og hv. nefnd flytji um þetta þingsályktunartillögu strax í næstu viku sem yrði þá samþykkt í hvelli — ég skal stuðla að því — mun ég styðja þá tillögu sem við ræðum hér. Ég mun sitja hjá við tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur en ég treysti því að nefndin muni flytja tillögu um að í gang fari framhaldsrannsókn sem muni fjalla um, bæði samhliða og eftir á, það sem gerðist eftir hrun.