141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna ber auðvitað að aðskilja hluti þannig að þeir séu greinilegri en hér er um rætt. Annars vegar er rekstur ríkisins, þ.e. hefðbundinn, árlegur rekstur, og þar hefur tekist að draga verulega úr útgjöldum. Ég er ekki að fullyrða neitt, það blasir bara við og um það vitna staðreyndir sem hægt er að kynna sér og blasa við í ríkisreikningi, samanburði á milli ára, fjárlögum milli ára o.s.frv. Niðurskurður í rekstri ríkisins hefur verið umtalsverður.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður bendir á, á undanförnum árum hafa komið upp og eru enn að koma upp ýmis mál sem verður að bregðast við. Ég nefndi í ræðu minni í dag ríkisábyrgðir hinna föllnu banka sem við höfum tekið inn nánast á hverju ári síðustu árin. Ég nefni Íbúðalánasjóð sömuleiðis, við höfum gripið til ýmissa ráðstafana varðandi hann á undanförnum árum. Við ætluðum honum hlutverk í kjölfar hrunsins, m.a. það að bregðast við erfiðleikum heimila og skuldugum heimilum. Eigið fé hans féll eins og annarra lánastofnana þannig að við höfum þurft að grípa til ýmissa ráðstafana. Það er annar hlutur og snýr ekki að rekstri ríkisins sjálfs heldur stofnana þess og hvernig við förum með einskiptisaðgerðir sem koma upp hverju sinni. Ríkisábyrgðirnar sem féllu á okkur á þessu ári í gegnum Kaupþing og Búnaðarbankann gamla eru ekki rekstrarmál ríkisins í sjálfu sér, heldur ábyrgðir sem falla á okkur.

Ég hef auðvitað áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs og hef haft alveg frá hruni og ég held við ættum öll að hafa þær. Kannski verða einhverjar tillögur um það hvernig á að bregðast við stöðu hans fyrir 3. umr. fjáraukalaga eða þá í gegnum fjárlög, eftir því hvernig það vinnst, aðstæður leyfa og ástæður eru til.