141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmönnum sem áttu orðastað áðan um að það er auðvitað mikilvægt að gera sér grein fyrir og fara vandlega yfir það sem snýr að Íbúðalánasjóði og þeim verkefnum sem þar eru fram undan vegna alvarlegrar stöðu hans sem margir þættir spila inn í. Það er kannski ástæðulaust að rekja það allt í þessari ræðu. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að margt spilar þar inn í sem veldur þeim erfiðleikum sem Íbúðalánasjóður er í, hvort heldur lán til lögaðila eða mikillar uppbyggingar með háum tölum. Eitt málið, sem verður fundur um í hv. fjárlaganefnd á morgun, hefur verið í fréttum síðustu daga þannig að ég held að það séu næg verkefni til að fara yfir á þeim vettvangi.

Í þessari seinni ræðu minni um fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum nú við 2. umr. langar mig að fara örstutt yfir einstakar tillögur sem ég náði ekki að fara yfir í fyrri ræðu minni. Mig langar að byrja á því að fara aðeins yfir það sem snýr að 190 millj. kr. fjárveitingu sem fer í rannsóknarnefndir Alþingis, annars vegar sem snýr að Íbúðalánasjóði og hins vegar að rannsóknarnefnd um sparisjóðina.

Þetta er ákveðin hvatning því að á þinginu hafa komið fram margar tillögur um hvað eigi að rannsaka, bæði um löngu liðna tíð og eins það sem er að gerast þessar vikurnar eða missirin. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði skipulagt betur en gert er. Eins og við sjáum er í þessu fjáraukalagafrumvarpi lagt til 190 millj. kr. viðbótarfjármagn, og heildarkostnaður við þessar tvær rannsóknarnefndir verður þá 450–460 millj. kr. samkvæmt kostnaðaráætlun fyrir heildarútgjöldin.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að við breytum vinnubrögðunum í þá veru að ekki þurfi alltaf að vera að rannsaka þau eftir á. Við ættum bara að læra af fortíðinni og reyna að haga okkur þannig í framtíðinni að ekki þurfi að eyða hundruðum milljóna í að rannsaka eitthvað eins og verið er að gera.

Síðan vil ég koma aðeins inn á það sem snýr að ríkisábyrgðunum. Við fáum því miður högg af þeim með reglulegu millibili, a.m.k. á síðustu árum, bæði vegna sölu bankanna við fyrri einkavæðinguna, ef ég má segja sem svo, og eins minni ég á að það eru inni ríkisábyrgðir vegna nýju bankanna. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvernig það er. Það er umhugsunarvert sem kemur einmitt fram núna í textunum með þessum 3,1 milljarði vegna svokallaðra skuldbindinga sem voru í Arion banka, áður Búnaðarbankanum, að það virðist ekki hafa verið nægjanleg yfirsýn yfir þessar ríkisábyrgðir. Af sumum þessara lána hafði ekki verið greitt ríkisábyrgðargjald þannig að það er mjög mikilvægt að taka þau mál föstum tökum.

Auðvitað þurfum við að læra af þessu, en ég minni á að í fréttum í morgun var fjallað um að Ríkisábyrgðasjóður er með til umsagnar það sem snýr að svokölluðum Vaðlaheiðargöngum. Þar er verið að fara enn og aftur af stað á þessari vegferð og við virðumst því miður læra allt of lítið.

Það er eitt sem mig langar að nefna hér lauslega sem ég tel að nefndin þurfi að skoða á milli 2. og 3. umr. og það snýr að 6. gr. heimildinni um sameininguna út af Þeistareykjum. Ég held að það sé mikilvægt að nefndin geri það og efast ekki um það. Það er mikilvægt að fara vandlega yfir hvað þar er á ferðinni til að vita hvaða skuldbindingar gætu hugsanlega lent á ríkissjóði þar ef það er einhver hætta á því.

Eitt sem mig langar að nefna líka til viðbótar snýr að Vegagerðinni. Eins og við munum gekk á fjárveitingar hennar og þær kláruðust á fyrri hluta þessa árs. Það er lögð til um 420 millj. kr. hækkun á fjárheimildum til Vegagerðarinnar vegna mikillar vetrarþjónustu og hálkueyðingar. Það þarf að skoða mjög vandlega hvort það er, eins og ég hef skilið það, í raun og veru til að setja Vegagerðina á núll miðað við stöðuna eins og hún er í dag en ekki er tekið á því sem fram undan er í haust. Við erum þegar búin að fá ávæning af því hvað það muni þýða.

Ég nefndi í andsvörum við hv. þm. Björn Val Gíslason áðan nokkuð sem sneri að svokölluðum S-merktum lyfjum. Venjan undanfarin ár hefur verið að það er bætt í þann málaflokk og þess vegna vil ég að það komi skýrt fram í umræðunni að það er ekki vegna þess að Sjúkratryggingar sjálfar hafi vanáætlað þar, hvorki í magnaukningu né um kostnaðinn. Þær hafa staðið sig gríðarlega vel í því en það hefur hins vegar ekki verið viðurkennt í gegnum fjárlögin með hvaða hætti það þurfi að leiðrétta. Það er mikilvægt að við höfum það til hliðsjónar þegar við fjöllum um þau mál sem snúa að því. Fulltrúar stofnunarinnar hafa bent á það á fundum fjárlaganefndar, sérstaklega við fjárlögin fyrir árið 2011, að eigi þau að ganga eftir gagnvart þeirri stofnun, sjúkratryggingastofnun, var fjárlaganefnd og hv. Alþingi gerð grein fyrir því og það var tekið upp í ræðum að fara yrði í ákveðnar breytingar á lögum og reglugerðum á Alþingi til að það gengi eftir og velferðarráðuneytið yrði að hafa forustu um það. Það var hins vegar ekki gert þannig að þeir njóti sannmælis sem þar stýra.

Síðan vil ég koma örstutt inn á það sem ég tel mjög mikilvægt að breyta og er mjög ósáttur við að sé óbreytt. Það snýr að endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Ég er ekki á móti því að styrkja einhverja atvinnuuppbyggingu, það er ekki vegna þess heldur þeirrar ákvörðunar sem hv. Alþingi hefur tekið. Ég tel að þetta ætti að vera enn ein ábendingin um mikilvægi þess að breyta þessum reglum. Það er sérkennilegt að það skuli koma í fjáraukalög fyrir 2012, m.a.s. um 150 millj. kr. fjárveiting, til að gera upp árið 2011 og til viðbótar 400 milljónir, þetta eru um 545 milljónir plús það sem er á fjárlögum þessa árs þannig að þetta er á að giska milljarður.

Staðreynd málsins er að það er búið að færa fjárveitingavaldið frá Alþingi vegna þess að með þeim samþykktum og lögum sem hér hafa verið sett er í raun og veru búið að láta aðra ákvarða hvernig þetta verður. Það verður með þessum hætti áfram nema því verði breytt. Ef menn vildu hafa skattalega hvata eins og er gert við nýsköpun og víðar væri eðlilegast að það væri í öðru formi en þessu. Það væri hægt að hafa ákveðna skattstofna sem viðkomandi aðilar þyrftu ekki að standa skil á, hvort sem það er tryggingagjald eða virðisaukaskattur, þannig að þetta kæmi ekki alltaf inn í fjáraukalögin. Því til viðbótar er Alþingi að mínu viti búið að gefa frá sér fjárveitingavaldið með þessu og það er mjög bagalegt.

Síðan vil ég nota síðustu sekúndurnar til að ítreka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Ég tel mjög mikilvægt að gerður verði samfélagssáttmáli um að taka á öllum þeim vandamálum sem fram undan eru í ríkisfjármálunum. Ég fór lauslega yfir nokkur þeirra áðan og ég held að það sé mikilvægt að það verði tekið föstum tökum og gert samkomulag um í hvað megi ráðstafa fjármunum á hverjum tíma og hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum gert skylt að fara eftir því til þess að hafa einhvern aga inni á þessari stofnun gagnvart austri á fjármunum.

Bæði fjárlög og fjáraukalög eru væntingar um það sem muni gerast. Ríkisreikningur er hins vegar staðreyndirnar, þegar hann er prentaður sjáum við hvernig hann er. Ég ætla ekki að fara aftar en til áranna 2010 og 2011. Til dæmis á árinu 2011 var gert ráð fyrir því að hallinn á ríkissjóði yrði 46 milljarðar en niðurstaðan varð 90 milljarðar, tvöfaldur. Á árinu 2010 var gert ráð fyrir að hallinn yrði 70 milljarðar en er í ríkisreikningi 123 milljarðar. Við sjáum að hérna skeikar um 100 milljörðum bara á tveimur árum í útgjöldum ríkissjóðs sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og fjáraukalögum miðað við þær staðreyndir sem koma síðan fram í ríkisreikningi. Þess vegna er mikilvægt að taka þessa hluti mjög alvarlega.