141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er ekki hægt að komast hjá því að hafa nokkur orð um þessa grein fjáraukalaganna, ekki síst eftir þá orðræðu sem stjórnarliðar fluttu hér um lágar fjárveitingar á fjáraukalögum að þessu sinni og mikinn aga og aukna festu í fjármálastjórninni. Í þessari grein fjáraukalaganna er verið að auka lántökur ríkissjóðs um 102 milljarða kr. frá fjárlagafrumvarpi ársins. Það kann vel að vera að sumum hér inni í þessum þingsal þyki það lág fjárhæð. Lántökugreinin er að fara úr 115 milljörðum í 217 milljarða. (Gripið fram í: Hneyksli.) Það munar 102 milljörðum. Ákvörðun um þessa nýtingu var sennilega tekin milli jóla og nýárs, hálfum mánuði eftir afgreiðslu Alþingis á fjárlögum, og svo dirfast menn að ræða um aukinn aga, aukna festu, lægri frávik frá fjárlögum o.s.frv. Ég held að það væri nær að þessi sömu og tala þannig hætti þeim blekkingaleik sem viðhafður hefur verið hér í tengslum við (Forseti hringir.) fjárlög ríkisins.