141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

slit stjórnmálasambands við Ísrael.

[15:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. 1. júní 2010 var samþykkt sameiginleg yfirlýsing í utanríkismálanefnd, sem ég ætla að grípa í, frá fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Hreyfingar. Þar kom fram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn ályktar að fela utanríkisráðherra, í samráði við utanríkismálanefnd, að skipuleggja ferð til Gaza-svæðisins og að Ísland standi að því að senda hjálpargögn til að aðstoða heimamenn og sýna þannig andstöðu við herkvína sem Ísraelsmenn hafa sett á Gaza í trássi við alþjóðalög. Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi.

Slit á stjórnmálasambandi við Ísrael kemur alvarlega til álita og er utanríkisráðherra falið að meta, í samvinnu við aðrar þjóðir, hvaða úrræðum verði beitt sem talin eru áhrifaríkust til að knýja á um breytingar í samræmi við alþjóðalög, svo sem alþjóðlegri samstöðu um viðskiptaþvinganir eða slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael, beri önnur úrræði ekki ávöxt.“

Mig langar í ljósi þessa að spyrja hæstv. utanríkismálaráðherra hver hans afstaða er í dag í ljósi þess að innanríkisráðherra Ísraels sagði í samtali við ísraelska dagblaðið Haaretz að endanlegur tilgangur hernaðaraðgerðanna væri að varpa svo mörgum sprengjum að Gaza-svæðið færðist aftur til miðalda. Sagði hann að eyðileggja þyrfti allar grunnstoðir samfélags Palestínumanna, taka í sundur vegi og neita þeim um aðgang að vatni. Aðeins þá yrði öryggi Ísraels tryggt næstu fjóra áratugina.

Telur hæstv. utanríkismálaráðherra að það sé orðið tímabært að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og hvetja til viðskiptaþvingana til dæmis meðal Norðurlandaþjóðanna?