141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég á erindi við hæstv. forseta Alþingis og bið hann að taka upp mál í forsætisnefnd þingsins. Málið varðar, að mínu mati, ámælisverð vinnubrögð hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar. Þannig er mál með vexti að í gær var upplýst á Alþingi að hæstv. innanríkisráðherra hefði sent einum hv. þingmanni skýrslu um stöðu lögreglunnar. Um það spunnust umræður sem hafa verið í fjölmiðlum síðan. Fréttir um stöðu lögreglunnar hafa birst á nánast öllum miðlum landsins. Mér brá mjög við þær fréttir í gær að einn hv. þingmaður hefði fengið þessa skýrslu en ekki allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Sú er hér stendur er í þeirri nefnd og samkvæmt þingsköpum á hún að fjalla um málefni löggæslunnar.

Ég spurði hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson út í þetta og hann svaraði um hæl að hann mundi strax láta senda allsherjar- og menntamálanefnd þessa skýrslu. Skýrslan hefur ekki borist. Ritari allsherjar- og menntamálanefndar hefur heldur ekki fengið hana og við stöndum hér og getum ekki rætt þessi mál þar sem við höfum ekki skýrsluna nema bara í gegnum einn hv. þingmann. Hann er ágætur og ber þessi mál fyrir brjósti en ég átel þessi vinnubrögð og bið forsætisnefnd að fara sérstaklega yfir vinnubrögð hæstv. ráðherra og framkomu hans gagnvart þinginu að þessu leyti. Ég tel óásættanlegt að fagnefnd fái ekki gögn en hv. þingmenn sem senda bréf í ráðuneytið fái þau. (Forseti hringir.)

Hæstv. innanríkisráðherra segist ætla að senda gögnin en svo kemur ekki neitt. Þetta gengur ekki upp, virðulegur forseti.