141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar og vil spyrjast fyrir um málefni tengd Reykjavíkurflugvelli og innanlandsfluginu. Ég er í hópi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem vilja sjá Reykjavíkurflugvöll festan betur í sessi í Vatnsmýrinni og fyrir því liggja að mínu mati gild rök sem ég ætla ekki að tíunda hér. Tel ég að við hæstv. ráðherra séum skoðanasystkin í þessu máli og ef marka má kannanir er mikill meiri hluti bæði borgarbúa og landsmanna á sama máli.

Í ljósi þessa meirihlutavilja þjóðarinnar er því merkilegt að endalausar tafir virðast einkenna allt sem lýtur að endurbótum á Reykjavíkurflugvelli. Hvað líður til dæmis betrumbótum á aðstöðu fyrir flugfarþega og flugfélög á Reykjavíkurflugvelli? Er eitthvað að frétta í þeim efnum eða er málið bara á ís um ófyrirsjáanlega framtíð?

Fáum dylst andúð borgaryfirvalda á Reykjavíkurflugvelli. Nýlegri beiðni Isavia um uppsetningu lendingarljóss sem auka átti öryggi var hafnað. Beiðni um að leyfa byggingu skemmu fyrir snjómoksturstæki var hafnað.

Má líta á þetta og fleira í þessum dúr sem afdráttarlausan ásetning skipulagsyfirvalda í Reykjavík um að bola flugvellinum burt? Er það ásættanlegt fyrir ríkisvaldið?

Auknar opinberar álögur á innanlandsflugið valda einnig verulegum áhyggjum og eru teikn á lofti um að rekstrargrundvöllur flugsins, einkum til jaðarsvæða, sé að veikjast verulega vegna þeirra. Hækkun fargjalda hefur orðið til þess að almenningur veigrar sér við að nýta flugið vegna kostnaðar. Íþróttafélög sem eru fjarri höfuðborginni og hafa til þessa reynt að nýta flugið sem mest eru sum nánast hætt að fljúga með liðin sín því að kostnaðurinn er orðinn svo gríðarlegur.

Hefur það verið metið hvaða áhrif auknar gjaldtökur ríkisins hafa á framtíðarmöguleika innanlandsflugsins? Til að fá svör við þessu, virðulegi forseti, hef ég lagt fram skriflega fyrirspurn (Forseti hringir.) til hæstv. ráðherra og vænti þess að henni verði svarað skjótt og vel.