141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:03]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem ég var að benda á í ræðu minni áðan, maður fær því miður ekki nema korter til að tala og kemur kannski ekki öllu að. Þetta endurspeglast akkúrat í því sem ég sagði, nú snýst málið ekki um efnisleg atriði, nú snýst það ekki um rök, viðbrögð eða tillögur eða eitthvað annað sem má fara þarna inn í stjórnarskrána heldur þarf nú allt að snúast um þetta heildarmat, hvað það sé, hvernig eigi að vinna það og hvað taka út úr því vegna þess að ekki sé hægt að vinna málið öðruvísi fyrr en þetta heildarmat liggi fyrir. Það er nákvæmlega komið á daginn sem ég sagði að væri í umræðunni í vor og fram eftir sumri, í málþófinu hér. Þá var stjórnarandstaðan uppfull af því að ekki væri hægt að búa við það að fá ekki frumvarpið inn á borð til að ræða það efnislega og þegar á að fara að ræða málið efnislega og menn kalla eftir viðbrögðum og einhverju efni inn í þá umræðu er ekki hægt að fara í hana vegna þess að menn þurfa að fara í svo mikið heildarmat.

Við getum alveg gert heildarmat á áhrifunum af því að auðlindaákvæðin eru komin inn í nýja stjórnarskrá eins og þau eru lögð fyrir og hvaða áhrif það hefur á fiskveiðistjórnarkerfið. Við getum gert heildarmat á því hvernig stjórnkerfið virkar eins og Feneyjanefndin á að taka fyrir. Við getum gert heildarmat á því hvernig málið snýr að kosningafyrirkomulagi og áhrifum þess. Þetta eru þættir sem við höfum tækifæri og tíma til að fara yfir. Ég sé ekki að neitt eigi að trufla okkur í því að vinna málið á þann máta.