141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil nú ekki 35. gr. þannig að þar sé verið að opna á rétt allra í heiminum til að hlutast til um íslensk umhverfismál, en ég fagna mjög að mikilvægum greinum Árósasamningsins skuli vera gert svo hátt undir höfði að þær fari í stjórnarskrá. Ég lít reyndar svo á, af því að hér var spurt um efnislega umræðu og umræðu um mannréttindi, að við höfum stuðlað að henni með því að fara í þetta ferli, og að við höfum stuðlað að mjög mikilli umræðu um þessi mál með því að efna til þjóðfundar og láta svo stjórnlaganefnd taka við þeim tillögum. Hún skrifaði tveggja binda verk um það allt saman. Síðan var kosið stjórnlagaráðs, um 520 manns buðu sig fram. Svo er það vinna stjórnlagaráðsins, fjölmargir skiluðu inn umsögnum í því ferli. Svo erum við náttúrlega ekki alveg í tómarúmi hvað þetta varðar, (Forseti hringir.) við erum búin að ræða mannréttindi og stjórnarskrána í samfélaginu alla tíð, um grunnskipan (Forseti hringir.) samfélagsins, og við erum aðilar (Forseti hringir.) að ýmsum mannréttindasáttmálum sem skapað hafa umræðu.