141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:09]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð því miður að taka undir þessa skoðun hans og upplifun hans af því plaggi sem við höfum í höndum. Hér er mjög margt sagt sem skýrir ekki svo margt. Ég hef þess vegna af því nokkrar áhyggjur að með umbyltingu af þessu tagi — þetta er auðvitað umbylting á stjórnarskrá Íslendinga. Ég hef áður sagt það í ræðustól í dag að margar af þessum breytingum eru ágætar og mega alveg verða að veruleika og eru til bóta, en margt annað held ég að skapi mikla óvissu í íslensku samfélagi um alllanga hríð. Ég held að orðskrúðið muni ekki auðvelda mönnum að ráða fram úr þessu plaggi.