141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans sem um margt var mjög athygliverð. Ég deili áhyggjum hans varðandi þá grein sem hann gerði að uppistöðu í ræðu sinni og er 111. gr. í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Það er alveg augljóst að eins og hún er sett fram þar býður það þeirri hættu heim að samningar séu gerðir við önnur þjóðríki og keyrðir í gegnum afsal fullveldis og í gegnum þingið í krafti meirihlutaræðis. Það vekur manni nokkurn ugg að það sé komið þannig fram á þingi, sérstaklega í ljósi þess hvernig ýmis mál hafa verið hanteruð af þinginu. Þar er nærtækt að líta til þess hvernig stjórnarandstöðu er meinaður aðgangur að upplýsingum til að rækja starf sitt, þótt ekki sé annað nefnt.

Engu að síður held ég að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi Íslendinga ræði í umræðunni sem fram undan er hvernig farið verði að því að tryggja betur í stjórnarskrá landsins það sem hefur sérstaklega verið áberandi í samskiptum okkar við Evrópusambandið og tengist EES-samningnum, hvernig við þræðum þá vandasömu línu. Ég vildi gjarnan heyra frá hv. þingmanni, sem ég veit að hefur hugleitt þau mál ærið vel, hvaða hugmyndir hann getur helst séð til að leggja inn í vinnuna sem fram undan er svo að ákvæðið verði þannig úr garði gert að við getum verið fullsæmd af því. Ég tel og ég vil undirstrika það að nauðsynlegt er að koma ákvæði sem þessu inn í stjórnarskrá landsins.