141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:45]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti eftir að svara spurningu frá hv. þingmanni um sameiginlegt prófkjör allra flokka sem einhvers konar lausn á prófkjörsvandamálinu sem ég leyfi mér að kalla svo. Mér finnst prófkjörin eins og þau blasa við mér í dag vera alvarlegt vandamál fyrir lýðræðið í landinu og það þurfi að breyta því. Ég heyrði þessa hugmynd fyrst í gær hjá hv. þingmanni, mér finnst hún mjög athyglisverð. Það getur vel verið að hægt sé að fara í eitthvert tilbrigði við persónukjör þar, ég veit það ekki, en það er mælt fyrir persónukjöri í þessu plaggi og til eru mjög margar útfærslur og útgáfur af persónukjöri sem þarf að leggjast yfir. Við sáum það þegar við fórum yfir persónukjörsfrumvörpin fyrir tveimur eða þremur árum.

Lögrétta er aftur á móti mál sem ég verð einfaldlega að viðurkenna að ég hef ekki skoðað mjög rækilega. Það er tilraun til að gera lögin betri úr garði gerð. Það má vissulega færa rök fyrir því að ekki sé æskilegt að þingmenn eða Alþingi kjósi Lögréttu, einhverjir aðrir geri það. En einhverjir þurfa að velja í Lögréttu (Forseti hringir.) og það er spurning hverjir eru til þess bærastir eða hvort það ætti að nota einhvers konar slembival, ég veit það ekki.