141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það sem ég var að fagna var að hvort sem menn eru sammála um að sætta sig við það eða ekki stendur Sjálfstæðisflokkurinn með okkur hinum í því að vernda mjög mikilvæga kosti og setja aðra í bið vegna upplýsingaskorts eins og formannahópurinn lagði til.

Það eina sem stendur út af eru þá þessir sex kostir sem settir voru í biðflokkinn í því sem hv. þingmaður telur vera hinn pólitíska hluta málsins þegar drögin að þingsályktunartillögu breyttust í þingsályktunartillögu. Hvert er ráð hv. þingmanns og flokks hans í þeim efnum um þessi sex svæði? Jú, þau að þessi sex og reyndar hin 61 líka séu sett í nefnd manna sem á að fjalla um þau og skila nýjum tillögum. Það er einmitt það sama og tillögur ráðherrans ganga út á. Tillögur ráðherrans gera hins vegar ráð fyrir að 61 svæði sé óhreyft en þau sex svæði sem ágreiningurinn stendur um milli hv. þingmanns og mín, milli stjórnarmeirihlutans væntanlega alls og Sjálfstæðisflokks, og Framsóknarflokks sem hefur sömu afstöðu í málinu, séu skoðuð betur. Munurinn er enginn því að við viljum setja þessa sex kosti í nýja rannsókn og Sjálfstæðisflokkurinn vill líka setja þessa sex kosti í nýja rannsókn. Hér er sýnilega að skapast sú sátt sem menn lýstu eftir.

Það eitt hefur gerst á þinginu að Sjálfstæðisflokkurinn er hallari undir náttúruvernd og til að taka tillit til komandi kynslóða en Framsóknarflokkurinn sem vill athuga sérstaklega tvær virkjanir þarna í viðbót. Ég fagna þessu og segi það við hv. þingmann, af því að hann talaði svolítið um Reykjanesskagasvæðin, að ef það kemur til greina hjá Sjálfstæðisflokknum að setja þar einhverja kosti í bið sem nú eru í orkunýtingarflokki er ég reiðubúinn til þess í því hléi sem gefst (Forseti hringir.) í þessari umræðu að ræða það við hv. þingmann og koma hugsanlega með framhaldsnefndarálit sem við getum sameinast um í hinni háu umhverfis- og samgöngunefnd.