141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

neytendavernd á fjármálamarkaði.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan erum við náttúrlega að taka á neytendamálum, raunverulega frá degi til dags. Á ótal mörgum ríkisstjórnarfundum er verið að fjalla um málefni sem snerta fjölskyldur og neytendur í landinu með einum eða öðrum hætti. Það er ekki síst skuldavandi heimilanna sem við höfum verið að taka á og gífurlega miklir peningar hafa verið settir í. Það vantar eftirlitsþátt með ýmsu í samfélaginu og við sjáum náttúrlega alveg það sem við fórum í gegnum varðandi hrunið, þar brugðust eftirlitsaðilar mjög mikið.

Hv. þingmaður höfðar hér sérstaklega til neytenda og ég er alveg sammála honum í því. Hvort það á að vera Neytendastofa sérstaklega þá hefur hún unnið gott starf og mér finnst það vel koma til greina. Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið hlutverk sem af því verður ekki tekið. Af því að ég held að hv. þingmaður sé sérstaklega að tala um eftirlit varðandi einstaklinga þá tel ég að Fjármálaeftirlitið sé alls ekki fullnægjandi í því efni. (Forseti hringir.) Ég fullvissa hv. þingmann um að neytendamál eru ofarlega á blaði hjá þessari hv. ríkisstjórn og hefur verið allt kjörtímabilið.