141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir hans ræðu sem um margt var athygliverð og ég get játað að ég var um margt sammála þeim áherslum, sérstaklega í lokakafla ræðunnar sem laut að þessari umgjörð ríkisfjármálanna og þeim hættum sem þar blasa við.

Margt í ræðunni er þess eðlis að ég er ekki endilega sammála því. Mig langar að heyra frá hv. formanni fjárlaganefndar, Birni Val Gíslasyni, um þá þætti sem enn standa utan frumvarpsins eins og það liggur fyrir við 2. umr. Ég kalla eftir því hvort lagt hafi verið mat á þá þætti sem standa út af til útgjalda en boðaðir hafa verið, eins og Íbúðalánasjóður, áformin um Landspítalann, Hörpu, sýslumannsembætti o.s.frv. Hefur verið lagt eitthvert fjárhagslegt (Forseti hringir.) mat á þá þætti sem kunna að koma inn á milli 2. og 3. umr.?