141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef vinstri flokkarnir eru reiðubúnir að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu. Sú uppbygging verður að fara fram með þeim hætti að bætt verði úr þeim tillögum og úr þeim kerfisbreytingum sem niðurskurður núverandi ríkisstjórnar hefur haft í för með sér. Það hafa allir skilning á því að það hafi þurft að skera niður á öllum sviðum samfélagsins. Það voru allir sammála um að vernda velferðar- og menntakerfið umfram annað. En ríkisstjórnin réðist í umfangsmiklar breytingar á heilbrigðiskerfi landsmanna í gegnum fjárlögin. Það er ástæðan fyrir því að haldnir voru íbúafundir víðs vegar um landið.

Nú vil ég spyrja hv. formann fjárlaganefndar, vegna þess að það stendur til að halda 3. umr. fjárlaga núna á miðvikudaginn eftir helgi, en við eigum eftir að fjalla um einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar sem verður bygging nýs háskólasjúkrahúss. (Forseti hringir.) Getur verið að sú framkvæmd ein og sér sé ástæða þess að farið var í þessar breytingar á heilbrigðiskerfi landsmanna og við höfum horft upp á á núverandi kjörtímabili?