141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Við erum og höfum verið það lengi, sammála um hversu mikilvægt er að taka á þessum vanda. Ég minntist á það áðan að nú skuldar ríkissjóður tæpa tvö þúsund milljarða og við erum í gjaldeyrishöftum. Samt erum við að fara að greiða vexti upp á 84 milljarða á næsta ári. Það blasir auðvitað við, þetta mikla, stóra verkefni. Þess vegna er ég áhyggjufullur af því, eins og ég sagði, að menn komi hér upp og segi: Hér er bara allt komið í fínasta stand.

En hvað er að gerast? Vaxtajöfnuður ríkissjóðs er t.d. að breytast mjög hratt. Árið 2011 vorum við með vaxtamun í mínus 46 milljarða, árið 2012 er reiknað með að hann verði 56 milljarðar, en á árinu 2013 er gert ráð fyrir að hann verði rúmir 63 milljarðar, þannig að þetta er í þessari þróun. Hv. þingmaður veit það örugglega mun betur en ég og gerir sér grein fyrir því vegna menntunar sinnar, að bara örlítið brot í vaxtaprósentu til eða frá þýðir ekki bara nokkur hundruð milljónir, það þýðir nokkra milljarða, jafnvel tugi milljarða sem liggur fyrir að þurfi að fara í niðurskurð eða tekjuöflun á móti. Það er því gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á umfangi þess sem er fram undan og hætti að tala um að það sé allt í lagi. Fara í einhverjar loftkastalabyggingar og skóflustunguáætlun, eins og ég sagði áðan, að fara að byggja einhver glæsihýsi sem við höfum ekkert með að gera fyrr en við erum búin að ná tökum á þessum vanda. Það er alveg gríðarlega mikilvægt.

Hv. þingmaður veit það líka og gerir sér grein fyrir því örugglega mun betur en ég að við erum með 3.000 milljarða — við tökum á því í álitinu — í gjaldeyri sem erlendir kröfuhafar eiga. Hvernig ætlum við að leysa það? Hvernig eigum við að leysa það? Er verið að ræða það eitthvað hér? Það held ég að sé allt of lítið rætt, þó að verið sé að ræða það örlítið í einstaka nefndum.