141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur aðeins misskilið mig. Ég var alls ekki að gera lítið úr því að hér hafi orðið hrun, alls ekki. Það sem ég var að vekja máls á var að á annan veginn koma stjórnarliðar og segja: Hér er allt að verða gott. Við höfum náð gríðarlegum árangri, okkur hefur tekist að snúa stöðunni við, við erum að fara inn í bjarta tíma. Þess vegna ætlum við að auka barnabætur, vera með grænkun íslenskra fyrirtækja og slík gæluverkefni. Síðan þegar við tökum umræðuna um skort á lögreglumönnum, um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, um brottfall í framhaldsskólum, um hin og þessi mál sem ég held að við séum innst inni öll sammála um að þurfi að setja í forgang, þá er sagt: Hér varð hrun, við höfum ekki pening. Ég var að gagnrýna forgangsröðunina.

Auðvitað er staðan betri núna, hv. þingmaður, en fyrir fjórum árum þegar við vorum í miðju hruni, en ekki hvað? Ég leyfi mér að fullyrða að ef það hefðu verið teknar ákvarðanir á þessum fjórum árum sem hefðu leitt til aukinnar verðmætasköpunar, við hefðum virkjað hér orkuna í neðri hluta Þjórsár, komið Helguvík af stað, látið sjávarútveginn í friði og gert fullt af hlutum sem voru á okkar valdi að gera þá væri staðan hér miklu betri.

Ég fagna því að fjárlagahallinn árið 2012 sé minni en hann var í miðju hruni 2008 og 2009, að sjálfsögðu. En að sama skapi er ömurlegt að horfa upp á vannýtt tækifæri og sóun á tækifærum og fjármunum sem hefðu getað komið okkur á miklu betri stað á (Forseti hringir.) þessum tímapunkti.