141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það er margt sem við hefðum getað gengið enn lengra í endurskoðun á og sérstaklega á sameiginlegu áhugamáli okkar, framhaldsskólanum, styttingu þess náms og allt það, en við geymum þá umræðu vonandi til tíma sem fljótlega koma.

Ég vil nefna hitt að það er mjög gagnlegt og spennandi að ræða þetta grundvallarmál um umfang samneyslunnar og hvað það er sem við eigum að stilla fram í fjárlögum. Það má kannski segja að um þetta sé kosið á fjögurra ára fresti. Í raun og veru held ég að munurinn á íslensku stjórnmálaflokkunum þegar allt kemur til alls í því sé oft ekki mikill þegar til stykkisins kemur, eins og kom fram að samneyslan jókst gríðarlega á síðasta áratug. Fyrir lá að ríkisstjórnin þyrfti að endurskoða það og draga úr samneyslunni en um leið að forgangsraða mjög verulega þannig að velferðar-, heilbrigðis- og menntamálin væru sett í forgrunn.

Ég vildi líka taka undir það sem hv. þingmaður nefndi að auðvitað vonumst við öll eftir því að aukinn hagvöxtur komi hérna til í gegnum aukna erlenda fjárfestingu. Það er mikill straumur erlendra ferðamanna hingað, það er hellingur af fjölbreyttum orkunýtingarverkefnum í farvatninu. Þau taka oft tíma, þau taka oft nokkur ár að ganga fram hvort sem það er austur á Bakka eða í Helguvík, kísilver, gagnaver og ýmislegt sem mun vonandi skila sér inn eitt af öðru. Og það er allt gert til að greiða götu þeirra verkefna eins og efni standa til.

Aftur að fjárfestingaráætluninni, þar vildi ég líka halda því til haga að öll þau verkefni sem þar er stillt fram eru samfélagslega mjög mikilvæg verkefni sem að mínu mati efla og styrkja innviði velferðarsamfélagsins hvort sem við tökum samgöngumál, eins og ferjuna á milli lands og Eyja, fangelsismál eða ýmislegt annað. Þetta eru allt fjárfestingar í mikilvægum innviðum. Þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann hvaða mál hún telur að þar mættu missa sín í þessari mikilvægu fjárfestingaráætlun sem ég held að muni skila miklum verðmætum inn í íslenskt samfélag þegar upp er staðið.