141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fjárlögin sem eru til 2. umr., er nú stendur yfir, eru síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar. Ég sagði fyrr í ræðu eða andsvari að ég vonaðist til að það væru alveg klárlega síðustu fjárlög ríkisstjórnar sem er samansett eins og sú er nú situr. Ég held að við séum flest búin að sjá og færa fyrir því rök að mjög mikilvægt er að breytt verði um kúrs. Að reynt verði að blása lífi í atvinnulífið í landinu þannig að það geti farið að byggjast upp og störfum að fjölga. Ég fæ ekki séð að það sé gert í fjárlögunum. Þar af leiðandi tel ég mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því og að hv. þingmenn taki þátt og segi hug sinn um einstaka þætti í frumvarpinu.

Við höfum svolítið fjallað um á hverju frumvarpið byggi, þ.e. að svo og svo mikill hagvöxtur verði o.s.frv. Það hefur líka komið fram að forsendur fyrir því byggi á einkaneyslu og fjárfestingum sem erfitt er að sjá fyrir sér að eigi sér stoð í raunveruleikanum. Áfram verður haldið og þó svo að það fari ekki vel að mínu viti þarf að nota þau tækifæri sem fyrir eru. Þau eru vitanlega að skapa atvinnulífinu og um leið, segi ég af því að ég vil tengja það saman, heimilunum og þeim sem keyra áfram íslenskt samfélag, umhverfi sem er ekki háð duttlungum heldur sem sé eins mikil vissa um og mögulegt er á hverjum tíma. Þau fjögur ár sem núverandi ríkisstjórn hefur setið við stjórnvölinn hafa einkennst af glundroða og mikilli óvissu fyrir atvinnulífið og heimilin. Það þarf að laga.

Milli 2. og 3. umr. fjárlaga stendur til að setja aukna fjármuni í útgjaldahliðina vegna nokkurra verkefna sem hafa verið nefnd hér í ræðum og annars staðar. Ég vil leyfa mér að staldra aðeins við eitt mál sem hefur verið töluvert mikið í fjölmiðlum og það eru málefni Íbúðalánasjóðs. Gefið er í skyn að staða Íbúðalánasjóðs sé eitthvað sem hafi komið mjög óvænt upp á og sjóðurinn sé í raun háður einhverjum öðrum lögmálum en aðrir sem starfa á markaði. Það má kannski færa rök fyrir því að önnur lögmál gildi um Íbúðalánasjóð en því má ekki gleyma að stofnunin er í einhvers konar samkeppni við viðskiptabankana. Starfsemi Íbúðalánasjóðs eru hins vegar settar mjög þröngar skorður, annað en bönkunum.

Íbúðalánasjóður er aftur að lenda í því í dag að bankarnir eru farnir að bjóða hagstæðari vexti af húsnæðislánum og í því tilfelli óverðtryggðum húsnæðislánum sem Íbúðalánasjóður getur ekki keppt við. Þar af leiðandi er mikill uppgreiðsluþrýstingur á lánum hjá sjóðnum. Ef við spólum aftur til ársins 2004 þegar lögum um Íbúðalánasjóð og lánafyrirkomulaginu var breytt var það aðallega gert af tvennu. Í fyrsta lagi vegna þess að svokallað verkamannakerfi var komið í þrot. Í öðru lagi sýndi sig að það húsbréfakerfi sem gjarnan hefur verið kennt við hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur var nánast komið í þrot líka og var mjög dýrt þeim sem í því voru. Einstaklingar og fjölskyldur sem keyptu sér húsnæði og fengu húsbréfin þurftu oft og tíðum að selja þau með miklum afföllum, hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum, til að geta losað sig við bréfin. Þau afföll lentu þá vitanlega á seljandanum, einstaklingnum eða fjölskyldunni. Ef menn gátu stært sig af lágum vöxtum var nauðsynlegt að bæta því tapi við vaxtaprósentuna og vextina sem höfðu verið greiddir til að átta sig á raunstöðu.

Innlendir og erlendir sérfræðingar bæði hvöttu til og vöruðu við að farin yrði sú leið að taka lán sem sjóðurinn gat ekki greitt upp. Með því var hins vegar ákveðið að láta lántakendur njóta betri vaxta og það að taka lán erlendis eða hjá lífeyrissjóðum sem er ekki hægt að greiða upp gerði það að verkum að hægt var að bjóða lægri vexti. Það sem gerist hins vegar er að 2004, og í framhaldinu, fara viðskiptabankarnir af stað og bjóða húsnæðislán með miklu offorsi. Þeir ætluðu sér augljóslega að ná þessum markaði frá Íbúðalánasjóði. Á fyrstu þremur mánuðum eftir breytinguna voru greidd upp lán sem nema 100 milljörðum hjá sjóðnum. Það urðu um 300 milljarðar þegar uppi var staðið. Það sjá allir að það hlýtur að koma einhvern veginn við sjóðinn þar sem hann gat ekki brugðist við með því að keppa á markaðnum.

Íbúðalánasjóður var með hámarkstölu á sínum lánum, eitthvað í kringum 18–20 milljónir ef ég man rétt, og þótt það hefðu verið 90% lán var ekki hægt að fá meira lánað. Á meðan lánuðu bankarnir nánast óheft, allt upp í 100% og heyrðist stundum að það hefði meira að segja farið yfir það, sem er vitanlega algjörlega óábyrgt. Sá vandræðagangur sem hlaust af því var fyrst og fremst af ofsafengnum útlánum bankanna en ekki því að Íbúðalánasjóður reyndi að halda sínu kerfi gangandi, ég ætla að leyfa mér að orða það þannig. Annað sem við megum ekki gleyma er að Íbúðalánasjóður gegndi mikilvægu félagslegu hlutverki þá og gerir í dag, þ.e. hann lánar jafnt út á landsbyggð og á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan er nauðsynlegt að muna líka þegar við ræðum að setja þurfi peninga inn í Íbúðalánasjóð og í fjárlögunum sem við ræðum hér að Íbúðalánasjóði var gert að taka til sín lán sem SPRON átti. Við munum að SPRON gaf upp öndina og hrundi og ætli það séu ekki einhverjir milljarðar sem komu þar inn af lánum frá þeim sparisjóði. Þannig að ýmislegt má telja upp í því.

Ég er hins vegar sammála þeim sem hafa rætt að það skipti máli hvernig menn horfa til framtíðar, hvert hlutverk sjóðsins á að vera og hvernig það á að fjármagnast. Það hlýtur að vera verkefni á næstu dögum. Það að ríkið skuli hafa þurft að setja 30 milljarða plús 13, eða hvað það er og þurfa kannski að enda í 50 milljörðum, inn í Íbúðalánasjóð er kannski í samhenginu við þær tölur sem ríkið hefur þegar sett inn í sparisjóðinn, bankakerfið, Sjóvá og slík félög, ekki það mikið þegar litið er til útlána sjóðsins og hlutverks hans á Íslandi. Það eru miklar upphæðir og þær komu til vegna þess að Íbúðalánasjóður var að keppa við bankana og varð fyrir áföllum í hruninu eins og flestar aðrar stofnanir sem voru að sýsla með fjármuni með einhverjum hætti. Ég tek því undir, eins og ég sagði áðan, með þeim sem vilja horfa til framtíðar.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að í fjárlögum sé gerð grein fyrir öllum þeim útgjöldum sem kunna að koma til og menn sjá fyrir á komandi ári og komandi árum. Ég hef áhyggjur af því að þurfa muni meiri fjármuni meðal annars út af stöðunni á fjármálamarkaðnum. Ég held líka að varhugavert sé að fara með núllstöðu á þátttöku ríkisins í að liðka fyrir kjarasamningum. Ég hef grun um að ef til þess kemur muni það að sjálfsögðu kosta eitthvað en það virðist sem taka eigi á því þegar, og ef, að því kemur.

Herra forseti. Ég vil því meina, enn og aftur, að það vanti eitt og annað í frumvarpið. Auðvitað er það þannig að frumvarpið er sett fram af góðum hug, ég efast ekki um það. Ég held hins vegar að það endurspeglist í ákafanum við að reyna að sýna góða hluti að þegar flett er í gegnum það og horft undir skelina sjáum við að ætlunarverk ríkisstjórnarinnar hefur mistekist. Það hefur mistekist að ná þeim árangri sem átti að ná. Við það verður að una, það er einfaldlega þannig. Kannski var farið of bratt af stað, kannski voru markmiðin of háleit en það er mjög mikilvægt að viðurkenna að svo sé og reyna ekki að stinga hausnum í sandinn eða fela sig. Það þarf að viðurkenna vandann svo hægt sé að taka á honum.

Herra forseti. Ég notaði tækifærið mest til að fjalla um Íbúðalánasjóð. Mér fannst mjög mikilvægt að koma því á framfæri. Í fyrsta lagi er myndin sem hefur verið dregin upp í fjölmiðlum undanfarið ekki svona einföld, að segja bara að einhver mistök hafi verið gerð, hlutirnir voru öðruvísi, og í hinu að undirstrika mikilvægi sjóðsins á íslenskum fasteignamarkaði.