141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal endaði andsvar sitt á að segja: Skyldu íslenskir kjósendur falla fyrir svona trixum?

Mig langar að segja örstutt frá ferð sem við í hv. fjárlaganefnd fórum í til Svíþjóðar til að kynna okkur umgjörð fjárlaga og framkvæmd þar. Ég man að á fundi með fulltrúum í sænsku fjárlaganefndinni fór ég að velta fyrir mér hvernig staðið væri að fjáraukalögum og þar fram eftir götunum, eins og við erum að vinna fjárlögin á hverjum tíma. Sænsku fjárlaganefndarmennirnir skildu ekki spurningarnar. Þeir skildu ekki hvað ég var að spyrja um. Það kom mjög greinilega fram að þeir hafa allt öðruvísi uppbyggingu á umræðum um fjárlög og annað, en þegar ég var búinn að spyrja þá nokkrum sinnum sögðu þeir: Þeir stjórnmálamenn í Svíþjóð sem þykja óábyrgir í fjármálum, sem kjósendur hafa einhvern minnsta grun um að fari óvarlega í fjármálum ríkisins, hljóta ekki kosningu, alveg sama í hvaða flokki þeir eru, þeir eru stignir út. Ef kjósendur í Svíþjóð hafa einhverja tilfinningu, skulum við orða það, fyrir því að einhver stjórnmálamaður sé ekki nógu ábyrgur í fjármálastjórn ríkisins og hafi þannig skoðanir er hann ekki kosinn aftur. Hann er bara stiginn út, alveg sama hvar hann stendur í flokki, skiptir engu máli.

Það sem auðvitað vantar mjög mikið er agi í ríkisfjármálum. Um það er ekki deilt. Ég held að allir geri sér grein fyrir stöðu ríkissjóðs og að vandamálið í framhaldinu sé agi.

En mig langar þó aðeins að koma inn á eitt atriði sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi, stóru myndin af lífeyrissjóðakerfinu. Það er að mínu mati mikilvægt að þetta komi fram. Það var nefnilega nokkuð merkilegt þegar við færðum vikmörkin inn í A-deildina á síðasta þingi, þá var verið að hækka vikmörkin þannig að sjóðurinn hefði meira svigrúm en auðvitað blasir við að það þarf að hækka greiðslur um 4% inn í lífeyrissjóðinn til að hann standi undir sér. Við höfum í raun dulinn halla í fjárlögunum ef við gerum það ekki.

Af hverju skyldi ég vilja ræða þetta? Við munum alveg eftir bréfinu sem kom frá Fjármálaeftirlitinu sem var mjög skýrt; annaðhvort mundum við hækka iðgjaldið eða skerða réttindin. Það var bara um tvennt að ræða. Það voru mjög skiptar skoðanir hvort það væri heimild í A-deildinni að skerða réttindin, en Fjármálaeftirlitið stóð fast á þessari skoðun. Það sem gerðist á fundi í hv. fjárlaganefnd og er auðvitað umhugsunarvert fyrir okkur sem hér störfum er að fulltrúar ríkisins, fjármálaráðherrar á hverjum tíma sem sitja í stjórninni, voru á einum fundi í stjórninni látnir fella tillögu fulltrúa launþega í stjórninni, þ.e. það var gert fundarhlé en eftir það komu þeir með formlega tillögu um að hækka iðgjaldið. Af hverju skyldu þeir hafa gert það? Vegna þess að þeim var bent á að vegna sinnar persónulegu stöðu væri jafnvel skynsamlegt að gera þetta, bera upp tillöguna sjálfir en láta aðra fella hana.

Þá veltir maður fyrir sér þeirri stöðu sem það ágæta fólk er í á hverjum tíma sem það situr í stjórninni. Það er fjármálaráðherra sem skipar fólkið og er jafnvel yfirmaður þess á sínum vinnustað. Þetta er auðvitað mjög sérkennileg staða og er mjög ósanngjarnt að mínu viti að gera þetta svona.

Ég tók það með í umræðuna þegar við vorum að ræða um hækkun á vikmörkunum að við skyldum gera okkur grein fyrir þessu. Það er mikilvægt að það komi fram að við gerum okkur grein fyrir því.

Svo ætti maður að spyrja sig hvað við Íslendingar lærum yfir höfuð af því sem er að gerast. Þegar A-deildin var stofnuð var B-deildin komin alveg í skrall og þá var tekin ákvörðun um að stofna A-deildina. Af hverju var það? Jú, til að stoppa þetta af. Nú skyldi setja á nýja deild sem yrði sjálfbær, þ.e. að hún stæði á hverjum tíma undir skuldbindingum sínum. Við þekkjum stöðuna í dag. Það eru nú þegar fallnir á 10 milljarðar, og 50–60 milljarðar í heildina. Það eru meira að segja áhöld um það hvernig á að færa í ríkisreikningi þann umframhalla sem er fallinn, en fjárlaganefnd gerir tillögu í sínu nefndaráliti um ríkisreikning 2010 um að það verði að vera kominn botn í það áður en ríkisreikningur fyrir árið 2012 verður gefinn út. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við þetta.

Hvernig höldum við svo áfram? Þegar við erum búin að stoppa einn stabbann sem er ekki nema rétt tæpir 400 milljarðar í B-deildinni höldum við nefnilega áfram á sömu braut með A-deildina. Þetta er ekki að gerast bara akkúrat í núinu. Það er einhvern veginn þessi þankagangur sem við búum og lifum við. Það er sú hugsun að þetta reddist.

Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við setjum okkur ákveðnar fjármálareglur. Ef við stöndum ekki undir skuldbindingunum, eins og gagnvart A-deildinni á hverjum tíma, erum við ekki að sýna réttan rekstur ríkissjóðs. Við geymum til framtíðar að borga launagreiðslur. Þá skiljum við eftir hallann fram í tímann og þá munu á næstu árum eða áratugum stjórnvöld þess tíma standa frammi fyrir þessu vandamáli. Við erum ekki með núvirtan rekstur, ef ég má nota það orð, vegna þess að við erum ekki að sýna rekstrarumfangið. Við verðum að breyta þessum vinnubrögðum.

Hugsum síðan út í fyrstu viðbrögðin þegar við stöndum frammi fyrir skuldsettum ríkissjóði upp á 1.900 milljarða með skuldbindingum. Við borgum 84 milljarða í vexti á næsta ári. Og hver eru þá fyrstu viðbrögðin? Að byggja hús íslenskra fræða fyrir tæpa 4 milljarða. Ég upplifi þetta þannig að við séum bara því miður í afneitun. Þá koma stjórnmálamennirnir og segja: Nú förum við í kosningar og við þurfum að fegra einhvern veginn stöðuna til að sýna árangur.

Það væri mikilvægt fyrir okkur að komast bara á, eins og ég hef stundum sagt, þennan stað sem við erum á núna og ræða vandamálin fram undan, ekki detta í þrasið um einstaka smáa hluti heldur styrkja fjárlagaumræðuna, fjárlagagerðina, og að Alþingi komi mun meira að því en nú er.

Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að mér finnst skilaboðin frá framkvæmdarvaldinu oft og tíðum inn í til að mynda það sem snýr að fjárlaganefnd með allt öðrum hætti. Ég ætla að koma með eitt dæmi. Það nýjasta er vandamálið hjá hjúkrunarheimilinu Eir. Vitneskjan hafði verið til staðar í einhverjar vikur áður en vandamálið kom fram í fjölmiðlum. Framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli velferðarráðuneytið, hafði ekki séð neina ástæðu til að tilkynna fjárlaganefnd um það. Nei, við vorum ekki látin vita af því. Þetta heyrðist bara í fréttatímum. Þegar framkvæmdastjóri heimilisins kom á fund fjárlaganefndar var auðvitað gerð krafa um það þar, og menn algjörlega sammála um mikilvægi þess, að formaður nefndarinnar, hv. þm. Björn Valur Gíslason sem er hér í hliðarsal, færi inn fyrir hönd fjárlaganefndar til að menn væru með þessi tengsl í lagi og hann mundi styrkja þá upplýsingagjöf sem þyrfti að koma inn í nefndina. Þetta var samdóma álit. Svona eigum við að vinna og svona eigum við að þróa okkur áfram í vinnunni.

Þetta tel ég mikilvægasta verkefnið fram undan, þ.e. að setja okkur fjármálareglur um það hvernig við ætlum að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er algjört lífsspursmál að mínu viti. Við þurfum að setja okkur reglur um hvernig við ætlum að greiða niður skuldir því að við getum ekki og megum ekki leyfa okkur að hugsa alltaf að við hendum þessu inn í framtíðina, þetta reddist, en svo bara kemur þetta því miður í höfuðið á okkur. Það er það sem við verðum að passa.

Þess vegna segi ég að við verðum að taka höndum saman enda er niðurstaðan í áliti Seðlabankans sú að það þurfi að setja bönd á stjórnmálamenn. Þeir eru alltaf að ráðstafa skatttekjum almennings. (Forseti hringir.)