141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að íbúar þessa sveitarfélags muni ekki geta skilið þetta á sama tíma og verið er að taka stórar upphæðir út úr sveitarfélaginu í formi veiðileyfagjalds — tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins og kjördæmisins hafa barist fyrir því á hæl og hnakka og kallað réttlætingu, hafa farið mikinn og haldið því fram að tilgangurinn sé að skila eðlilegu gjaldi til þjóðarinnar. Á sama tíma og það er gert er ekki hægt að veita þessa grunnþjónustu í sveitarfélaginu.

Skýrasta dæmið til að nefna er kannski bygging Húss íslenskra fræða fyrir 3,7 milljarða — í frumvarpinu er talað um 3,4 milljarða en fram kom á fundi fjárlaganefndar að það væri ekki öruggt, að gert væri ráð fyrir 300 millj. kr. hönnunarkostnaði, þannig að það mundi sennilega bætast við. Og þetta er auðvitað áætlun, við vitum hvernig þær hafa gengið eftir. Á meðan er ríkið með fullt af leigusamningum, fullt af húsnæði sem ekki er nýtt, nóg til af því. Fólkið, alveg sama hvar það býr, skilur þetta ekki og enginn getur ætlast til að það skilji þetta. Skilaboðin eru á þann veg að fólkið sem býr í þessu sveitarfélagi, sem vinnur að langstærstum hluta við sjávarútveg, hlýtur að líta á sig sem vinnudýr fyrir ríkissjóð. Svo er það hinna misvitru stjórnmálamanna, eins og stundum er sagt, að skammta úr hnefanum, hvað megi skammta fólkinu.

Þegar ekki er hægt að veita nauðsynlega grunnþjónustu, hvaða þjónustu þarf fólk þá? Þá þarf það enga þjónustu. Ef fólk getur ekki fengið læknisþjónustu þarf það enga aðra þjónustu.