141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil sérstaklega vekja athygli á og vona að ég nái að fara yfir í ræðu minni. Það eru breytingartillögur sem koma frá meiri hluta nefndarinnar og snerta m.a. þjóðgarðinn á Þingvöllum, en 59,5 millj. kr. eru áætlaðar til nýframkvæmda í þjóðgarðinum. Ég vek athygli á þessu vegna þess að ég sit í hv. Þingvallanefnd sem fer m.a. með málefni þjóðgarðsins.

Ég hef ekki fengið tækifæri til að fara yfir þessar tillögur og um hvað þær snúast. Ég hefði haldið að Þingvallanefnd sem hefur það hlutverk að fara með stjórnun og stefnumótun málefna þjóðgarðsins hefði átt að fá tækifæri til að ræða þær. Þetta er sem sagt nýtt framlag og það er gott, það þarf að fara í uppbyggingu á gönguleiðum og ýmsum þáttum í garðinum, en þetta eru 59,5 millj. kr. Þetta er stór fjárhæð, ekki síst fyrir Þingvallanefnd sem fram til þessa hefur kannski ekki verið vön svo háum fjárhæðum og hefur þurft að búa við knappan kost og það er allt í lagi með það. Við förum þá hægar í uppbygginguna. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 59,5 millj. kr. tímabundið framlag til að standa undir sérstöku átaki í því skyni að byggja upp innviði viðkvæmra en vinsælla ferðamannastaða á friðlýstum svæðum. Samtals eru gerðar tillögur um 250 millj. kr. til þessarar uppbyggingar á næsta ári á nokkrum fjárlagaliðum. Um er að ræða eitt af verkefnum í fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015 sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Verkefnin verða fjármögnuð annars vegar með sérstakri tekjuöflun af veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins og hins vegar með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu. Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Við þekkjum þessa klausu. Ég hef farið margoft yfir það hversu mjög sú aðferðafræði sem ríkisstjórnin beitir varðandi auðlindagjald skaðar sjávarútveginn. En það er með ólíkindum að menn ætli að taka veiðigjaldið og tekjur af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu og nota í ákveðin gæluverkefni — og þetta er eitt af þessum gæluverkefnum — í stað þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs og hugsa um hag framtíðarborgara okkar.

Verkefnið sem slíkt sem ég er að vekja athygli á varðandi þjóðgarðinn á Þingvöllum er eflaust fínt, það er örugglega gott. En ég mótmæli þessari aðferð af því að hér er ríkisstjórnin að segja okkur í Þingvallanefnd hvernig við eigum að haga verkum okkar. Við höfum ekki komið að þessu máli áður. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé þessa tillögu. Það getur vel verið að það hafi átt að taka þetta upp á fundi Þingvallanefndar en það hefur ekki gerið gert. Með þessu framlagi, með þessari tillögu erum við í nefndinni í raun að taka við tillögum og skipunum frá ríkisstjórninni. Ég vil mótmæla slíkum vinnubrögðum þrátt fyrir að verkefnið kunni að skipta miklu máli.

Ég verð að segja að enn og aftur komum við að því að stjórnmálamenn, þótt skammt sé til kosninga, verða að þora að segja hvar og hvernig þeir ætla að forgangsraða. Þeir gera það ekki í þessu frumvarpi. Ég hefði frekar viljað sjá niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs eða að farið hefði verið í önnur mikilvæg grunnþjónustuverkefni í starfsemi ríkisins sem eru, eins og ég hef margoft áður komið inn á, meðal annars löggæsluverkefnin sem hafa gríðarlega mikla þýðingu. Aftur og aftur koma gestir á fund nefndarinnar sem ítreka mikinn fjárskort hjá lögreglunni. Við vorum síðast í dag með fund hjá Varðbergi þar sem Jón F. Bjartmarz, einn af okkar reynslumestu lögreglumönnum, benti ítrekað á þá vá sem kann að vofa yfir okkur Íslendingum eins og mörgum öðrum þjóðum vegna hugsanlegra hryðjuverk. Það er ekki til fjármagn til að stuðla að forvörnum og vinna að því að hægt sé að spyrna við slíkum óhæfuverkum.

Ég hefði gjarnan viljað sjá menn innan ríkisstjórnar og hjá stjórnarflokkunum þora að fara í forgangsröðun í stað þess að setja upp gæluverkefnalista eins og ríkisstjórnin hefur gert með fjárfestingaráætluninni. Þótt eflaust sé hægt að taka undir margt sem þar kemur fram hefði ég viljað sjá annan forgang. Ég vildi vekja athygli á þessu máli, hæstv. forseti.

Hitt málið sem ég vil vekja sérstaka athygli á í ræðu minni og byrjaði aðeins á því fyrr í dag varðar 6. gr. heimild til að selja eignarhlut ríkisins í fasteignum St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þegar ég var að fara yfir fjárlagafrumvarpið í fyrsta sinn og las þessa setningu á bls. 10 um sölu á eignarhlutnum fannst mér það vera uppgjöf, alger uppgjöf, af hálfu ríkisstjórnarinnar í stefnumótun hennar varðandi uppstokkun á heilbrigðiskerfinu. Ég hef undirstrikað að við sjálfstæðismenn höfum svo sannarlega viljað taka þátt í því að taka erfiðar ákvarðanir í heilbrigðismálum. Við vissum að það þurfti að hagræða og nýta allar leiðir til að nýta fjármagnið sem best til að viðhalda þjónustu. Við vorum tilbúin til að taka ákveðin skref varðandi St. Jósefsspítala, en síðan var allt svikið sem lofað var af hálfu hæstv. velferðarráðherra.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á stuttri grein sem birtist í dag í Morgunblaðinu um St. Jósefsspítala en efni hennar tengist einmitt þeim stjórnarmeirihluta sem nú situr því að við Hafnfirðingar búum einmitt við sama stjórnarmeirihluta í bæjarstjórninni heima í Hafnarfirði, sem er afar miður og til mikils vansa fyrir okkur bæjarbúa. Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr þessari grein sem ber yfirskriftina „St. Jósefsspítali — er líf eftir lokun?“ og er eftir Kristin Andersen og Geir Jónsson.

„Nú er liðið á annað ár síðan St. Jósefsspítala í Hafnarfirði var lokað, eftir 85 ára farsælt starf fram til síðasta dags. Síðustu árin hafði spítalinn þróað starfsemi á afmörkuðum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, sem markaði honum sérstöðu í heilbrigðiskerfinu sem sérgreinasjúkrahús. Árangur spítalans og starfsfólksins þar dugði þó ekki til gagnvart fyrirætlunum ríkisvaldsins og þessi þjónusta lagðist þar af með lokun spítalans. Búnaður og tæki, sem mörg höfðu verið gefin af velgjörðarmönnum og félagasamtökum í bænum, voru flutt út úr húsnæði spítalans við Suðurgötu. Um hundrað störf lögðust af eða fluttust frá Hafnarfirði. Þegar stofnun á borð við St. Jósefsspítala er lögð niður hverfa ekki aðeins efnisleg verðmæti úr bænum, heldur skaðast sú velvild og sá metnaður sem samfélagið hefur haft til starfseminnar og verður ekki metinn til fjár.

Nýtt hlutverk St. Jósefsspítala? — Hús St. Jósefsspítala stendur eftir, glæsileg bygging í hjarta Hafnarfjarðar sem nú hefur um alllangt skeið staðið auð og án hlutverks, nöturlegur vitnisburður um skeytingarleysi ríkisvaldsins, sem á spítalahúsið að stærstum hluta. Á hverjum degi minnir húsið á sig í bæjarmyndinni, minnisvarði um gróskumikið og gefandi starf um áratugaskeið. Ekki hefur liðið sá dagur eftir að spítalinn var tæmdur, að Hafnfirðingar hafi ekki hugsað til þess hvað verði um bygginguna.

Ýmsum hugmyndum hefur verið varpað fram um nýtingu á húsi St. Jósefsspítala — á vegum einkaaðila eða fyrir opinbera starfsemi. Þar má nefna hótel eða starfsemi sem tengdist t.d. heilsutengdri ferðaþjónustu, skólastarf, námsmannaheimili eða stúdentagarða, eða jafnvel ráðhús bæjarins. Þá má nefna vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla í sprotafyrirtækjum eða listamenn, starfsemi fyrir aldraða, eða heilbrigðis- eða hjúkrunarstarfsemi af einhverju tagi. Ýmis tækifæri felast í nálægð við Flensborgarskólann og Menntasetrið við lækinn, þar sem m.a. hefur verið starfrækt öflugt fjarnám á háskólastigi. Þá má nefna þörf sem nú þegar er fyrir ýmis dvalarúrræði tengd öldrunarmálum, sem St. Jósefsspítali gæti hugsanlega hentað vel fyrir.

Það vekur furðu hve hljótt fer um að stjórnvöld finni húsi St. Jósefsspítala nýtt hlutverk, hvort heldur sem er af hálfu ríkisvaldsins eða hjá þeim sem fara með meirihlutavöld í Hafnarfirði. Ef eitthvað slíkt hefur verið uppi á vettvangi bæjarstjórnar hefur ekkert samráð“ — kannast nú einhver við það — „verið haft við minni hlutann þar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem þó hafa ítrekað látið sig málefni St. Jósefsspítala varða. Í nýlegu viðtali við fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar og alþingismann Samfylkingarinnar kemur berlega í ljós að framtíðarsýn fyrir St. Jósefsspítala vefst fyrir mönnum og ekkert liggur enn fyrir um framtíðaráform fyrir húsið.

Velferð í verki? — St. Jósefsspítali stóð af sér fyrri atlögur, þar sem Hafnfirðingar, starfsfólk og velunnarar spítalans slógu um hann skjaldborg til að verja starfsemina. Svo fór þó að það var einmitt ríkisstjórn skjaldborgarinnar sem að lokum veitti sjúkrahúsinu náðarhöggið. […] Þeir sömu og boðuðu „vinnu og velferð“ í Hafnarfirði horfðu þannig á eftir hundrað störfum að velferðarmálum hverfa úr bæjarfélaginu. Örlög St. Jósefsspítala verða ekki gleymd Hafnfirðingum, eða þeim sem notið hafa þar umönnunar í áranna rás, þegar kemur að uppgjöri við velferðarstjórn að vori.“

Svo mörg voru þau orð og undir þau vil ég taka. Ég mun koma inn á fleiri mál í næstu ræðu minni og bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá.