141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að þetta getur ekki staðist. Bara við tóbaksgjaldið mun vísitalan hækka um 0,25% og lánin þar af leiðandi um 3 milljarða, og þá eru hinir þættirnir allir eftir. Ég met það sem svo að menn hafi bara gert mistök og færu betur yfir það, því að það er til lítils að setja 2 milljarða í vaxtabætur ef lánin hækka, bara út af tóbakinu, um 3 milljarða.

Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið dregið í efa en ég held að — það var áhugavert að fulltrúar fjármálaráðuneytisins mættu og komu ekki með þetta sundurgreint. Þessu var slegið fram, 0,2%, en síðan komu aðilar frá Félagi atvinnurekenda sem töldu og færðu rök fyrir því að bara tóbaksgjaldið væri hærra en það. Ég held að afskaplega mikilvægt sé að við fáum upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefur á skuldir heimilanna áður en lengra er haldið, (Forseti hringir.) því það er til lítils að fara í aðgerðir sem menn telja að hjálpi ef aðgerðir með hinni hendinni (Forseti hringir.) hækka lánin.