141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni hvernig fjölgun gistinátta hefur verið hér á undanförnum tveimur árum, þ.e. þessu og því síðasta, og hún hleypur á tugum prósenta. Það er veruleg hækkun og það er vel, bæði í komu ferðamanna og líka fjölgun gistinátta þannig að við erum að nýta rýmin á gististöðum um land allt mun betur.

Ástæðan fyrir því að ákveðið var að færa skattinn í 14% en ekki 25,5% er sú að ferðaþjónustan eða gistingin var í því þrepi, 14%, árið 2007, þá var því breytt. Við teljum að hún þoli að vera í því þrepi. Það er töluverður munur á 25,5% og 14%, þannig að ég tel að 14% eigi hvorki að hafa fælingaráhrif á ferðamenn né heldur að hafa áhrif á fjárfestingaraðila í uppbyggingu í gistiþjónustu. Það er vegna þess að hér er fjölgun ferðamanna gríðarleg og átak sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur verið að leggja í með ferðaþjónustunni í að fjölga (Forseti hringir.) ferðamönnum allt árið er að skila árangri.