141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er sjálfsagt að fagna öllu sem vel er gert, en í ljósi orða sumra hv. þingmanna áðan við atkvæðaskýringu varðandi Ferðasjóð Íþróttasambands Íslands er ástæða til að halda einu til haga; í þessum liðum öllum er fyrst og fremst verið að bæta upp þá skerðingartillögu sem gerð var í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í byrjun september. Samanburðurinn á milli ára í fjárveitingum til þessara málaflokka er því ekki sá sem hér er gefið í skyn, að hér sé 40% vöxtur á milli ára, þannig að þeim hlutum sé haldið til haga.

Það er fyrst og fremst verið að bæta upp í krónutölu skerðinguna sem lögð var fram í frumvarpi til fjárlaga í september og krónutalan er ósköp svipuð því sem hún var fyrir allt síðasta ár.