141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil benda á uppbyggingu nýs fangelsis hjá ríkinu undir liðnum Fangelsismálastofnun. Ég tel það vera mikilvægt verkefni enda er búið að vera algert ófremdarástand í fangelsismálum þjóðarinnar um nokkurt árabil.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því að við höfum verið að fjalla um liði sem falla undir innanríkisráðuneytið og vil ég taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að það skiptir máli að við sjáum breytingu á milli 2. og 3. umr. fjárlaga þegar kemur að löggæslunni í landinu. Við sjálfstæðismenn höfum margítrekað bent á það í umræðum um fjárlög að mestu áhyggjur okkar núna varðandi innanríkisráðuneytið eru málefni löggæslunnar. Það verður að koma aukaframlag til löggæslunnar svo hún geti að lágmarki sinnt lögbundnum verkefnum sínum víða um land, ekki síst á landsbyggðinni.