141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem er orðin býsna brýn. Því betur sem við sjáum hver staða Íbúðalánasjóðs er og hvernig hún er að þróast til framtíðar, þeim mun betur sjáum við hvers lags mistök voru gerð við stofnun nýju bankanna, að nýta ekki það tækifæri sem þá var til staðar og flytja öll fasteignalán gömlu bankanna yfir í Íbúðalánasjóð með verulegum afslætti þegar skuldabréf bankanna voru keypt og seld á 2%, 3% eða 5% af nafnvirði. Íslensk fasteignalán voru flokkuð sem undirmálslán í landi sem var sagt gjaldþrota sem skapaði einstakt tækifæri samhliða uppskiptum bankanna til að færa þessi lán öll yfir í Íbúðalánasjóð og veita síðan afskriftir, a.m.k. 20% til að byrja með, áfram til skuldsettra heimila. Það hefði á sama tíma styrkt stöðu Íbúðalánasjóðs til mikilla muna.

Nú birtist vandi Íbúðalánasjóðs fyrst og fremst í því að lán eru greidd upp hraðar en sjóðurinn gerði ráð fyrir og hann getur ekki endurfjármagnað sig jafnhratt og þeim uppgreiðslum nemur. En hvers vegna eru lán greidd upp svona hratt? Það er vegna þess að fólk tekur lán í bönkunum til að borga upp lánin hjá Íbúðalánasjóði. Og hvaða lán eru þetta sem bankarnir veita? Jú, þeir eru að koma innlánum í útlán, innlánum sem njóta ríkistryggingar samkvæmt yfirlýsingu ráðherra, ókeypis ríkisábyrgðar, svoleiðis að ríkið veitir í rauninni bönkunum ókeypis ábyrgð á þessum innstæðum sem svo eru lánaðar aftur á hagstæðari kjörum en Íbúðalánasjóður getur keppt við. Þar með er Íbúðalánasjóður settur í vanda. Þetta er lýsandi fyrir það hversu nátengd staða Íbúðalánasjóðs og bankakerfisins alls er og nauðsynlegt að líta á þetta allt í samhengi.