141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er frekar vafasamt að halda því fram að vandi sjóðsins sé falinn í því hvernig brugðist var við eftir að hann féll með hruninu. Ég skil í sjálfu sér ekki þá röksemdafærslu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson færði fyrir vanda sjóðsins, að hann væri fólginn í því hvernig brugðist var við vandanum. (Gripið fram í.) Vandi sjóðsins á sér miklu lengri sögu og er dýpri en þetta. Eins og hér hefur komið fram felst hann í því hvernig sjóðurinn hefur verið fjármagnaður, hvernig staðið var að lánveitingum úr honum, m.a. með óeðlilegum útlánum, ekki síst til lögaðila, sem við fáum nú til okkar af fullum þunga.

Vandi sjóðsins er allur til kominn fyrir árið 2009. Það er sá vandi sem við erum að glíma við hér og þingið hefur af þeim sökum þurft að setja tugi milljarða inn í sjóðinn til að halda honum á floti og gera hann rekstrarhæfan. Viðbrögðin við vandanum hafa verið þau, eins og ég sagði áðan, að þingið ákvað haustið 2010 að setja í hann 33 milljarða til að halda honum á floti. Síðan hefur farið fram ítarleg úttekt á stöðu sjóðsins, þ.e. bæði á fjárhagsstöðu hans og framtíðarskipulagi, hvort það ætti að breyta því og þá í hvaða veru. Að því er unnið í dag.

Það kom fram við 2. umr. fjárlaga, að mig minnir þegar ég flutti nefndarálit meiri hlutans, að tillögur um Íbúðalánasjóð mundu bíða 3. umr. Þar verður hægt að taka dýpri spretti í þeim hugmyndum sem að minnsta kosti meiri hlutinn hefur um framtíð sjóðsins. Ég hef ekki séð neinar tillögur frá minni hlutanum um það frekar en annað. Kannski kemur það við 3. umr. Við ætlum Íbúðalánasjóði annað hlutverk en öðrum lánastofnunum á íbúðalánamarkaði og tillögur okkar munu auðvitað taka (Forseti hringir.) mið af því auk þess að þurfa að treysta fjárhag sjóðsins enn frekar en orðið hefur.