141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp í 1. umr. Ég reikna með að það fari fram töluvert meiri umræða þegar málið kemur frá nefnd í 2. umr., en ég vildi þó taka eftirfarandi fram.

Við þær aðstæður sem eru í efnahagsmálum þjóðarinnar ber að gjalda varhuga við öllum tilraunum og tillögum til að hækka gjöld og álögur sem síðan leiða út í verðlagið, til hækkunar á vísitölu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvers vegna það er. Íslensk heimili eru of skuldsett, sama hvernig á það er litið, og það þýðir að allar hreyfingar upp á við í verðbólgunni eru heimilunum mjög dýrar. Litlar breytingar á verðbólgunni geta hlaupið á milljörðum í hækkun á lánum heimilanna. Hvort sem um ræðir það mál eða önnur sambærileg, sem ríkisstjórnin er að véla um þessa dagana í bandorminum svokallaða eða í fjárlagafrumvarpinu þar sem um ræðir gjaldahækkanir sem leiða til hækkunar á verðlagi, er það að mínu mati svo að menn eiga að skoða það mjög vandlega, reyna að finna allar mögulegar leiðir til að snúa ofan af slíku og koma í veg fyrir að það gerist.

Seðlabanki Íslands hefur áhyggjur af verðlagsþróuninni. Þegar Seðlabankinn lýsir væntingum sínum um verðbólguna tiltekur hann sérstaklega áhyggjur sínar af meðferð fjárlagafrumvarpsins, hver endanleg tala verður þar og hver verðlagsáhrifin af fjárlagafrumvarpinu verða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir það sama. Hann hefur áhyggjur af verðlagsþróuninni, og reyndar meiri en Seðlabankinn. Það eru nákvæmlega svona mál sem ýta undir þá þróun, kosta heimilin og valda því að pressan á Seðlabankann að vera áfram í vaxtahækkunarferli eykst. Þegar áhrif þeirra mála eru lögð saman, því kannski má segja sem svo að hvert og eitt þeirra sé ekki svo hræðilegt, skipta þau máli fyrir heimilin í landinu og skuldsetningu þeirra.

Það sem meira er þýða verðlagshækkanirnar að kaupmátturinn skerðist. Þá kemur eðlilega krafa frá launþegahreyfingunni um að það sé bætt í kjarasamningum. Það liggur fyrir að svigrúm fyrirtækjanna til að mæta slíkri hækkun á kaupgjaldsliðnum er horfið vegna skattahækkananna. Vegna þess að ekki var staðið við loforð um að lækka tryggingagjaldið og verið er að hækka ýmis önnur gjöld geta fyrirtækin ekki mætt hækkuninni. Það sem fer af stað, og það er alveg hræðilegt að þurfa að vera að fara í gegnum þá sögu eina ferðina enn því hún ætti að vera okkur Íslendingum vel kunn, er víxlverkan launa og verðlags. Innstæðulausar kauphækkanir sem leiða til verðhækkana og verðbólgu sem síðan leiða aftur til kauphækkana og svo koll af kolli. Það grefur undan efnahagsstarfsemi og kaupmættinum og við þær aðstæður, þegar lánin eru svona mikil og há og stór hluti þeirra verðtryggður, er það skelfileg þróun. Þess vegna hefði það þurft að vera, og varð að vera, þannig í þessu frumvarpi að allt væri gert og að öllu væri gætt til að koma í veg fyrir verðlagshækkanir.

Virðulegi forseti. Nú er það svo að það kunna að vera göfug og góð lýðheilsumarkmið bak við það að draga úr sykurneyslu. Það er víst alveg ábyggilegt og þarf ekkert að deila um að sykurneysla er of mikil á Íslandi. En það sem ég var að lýsa hér áðan gengur framar í þeim verkefnum sem við fáumst við núna. Það verður að raða hlutunum rétt upp. Það verður að vera rétt forgangsröðun og forgangsröðunin í þessu frumvarpi átti bara að vera ein. Hún var sú að koma í veg fyrir verðbólgu, hækkun lánanna, og vanda varðandi kjarasamningana, og síðan gera allt sem við getum til að fjárlögin verði þannig að þau auðveldi okkur afnám gjaldeyrishaftanna og ýti undir hagvöxt. Það voru mikilvægustu þættirnir. Því miður er frumvarpið sem er til umræðu ekki til þess fallið að ná neinum af þeim markmiðum heldur gengur þvert á móti.

Hvað varðar lýðheilsusjónarmiðin get ég tekið undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa bent á að það kann að verða erfitt fyrir ríkisvaldið að fara fram með þessa tegund af skattlagningu til að ná markmiðunum. Það kann að verða flókið. Það má vel velta fyrir sér annarri óhollustu og spyrja hvers vegna er ekki tekið á þeim þáttum. Saltneyslu, fitu og ýmsu öðru sem veldur vandræðum út frá lýðheilsusjónarmiði. Því skyldum við ekki skattleggja það eins? Menn sjá þá hvar þetta endar og reyndar var mér bent á ágæta hugmynd. Því ekki að fara frekar þá leiðina að skilgreina það sem er einstaklega hollt og gott og lækka frekar gjöldin þar, gera það ódýrara og aðgengilegra og leggja meiri áherslu á almenna meðvitund og skilning á því hversu hættulegt það er að neyta of mikils sykurs, fitu, salts og annarrar óhollustu? Það er eitt sjónarmið. Ég játa að ég hef ekki lagt mig mjög eftir því að skoða þessi tollalög og tollskrárnúmer og allan þann frumskóg. Það er vægt til orða tekið að tala um frumskóg þegar menn fara að skoða það. Þetta virkar á mig sem alveg ótrúlega, ég leyfi mér að segja gamaldags kerfi og undarlegt kerfi. Ég ætla að grípa niður á bls. 6 í frumvarpinu þar sem er verið að lýsa tollskrárnúmerinu 1806.9028, 1806.9209 og 1806.9039, þau tollskrárnúmer eiga öll falla niður. Ekki veit ég hvaða afleiðingar það hefur og hvað kemur í staðinn. Ég ætla að lesa þennan texta sem dæmi um hvað það hlýtur að vera erfitt að vinna eftir því öllu saman:

Kakóduft, þó ekki í vörur í nr. 1901, sem mér sýnist vera kextengd framleiðsla, sem inniheldur 30% eða meira miðað við þyngd af nýmjólkur- og/eða undanrennudufti með eða án viðbætts sykurs eða annarra sætuefna en án íblöndunar annarra efna.

Svo kemur tvípunktur og svo langur listi af alls konar hlutum sem þarf að hafa í huga þegar verið er að reyna að greiða úr þessu. Þetta er alveg ótrúlega margbrotið og sérkennilegt og þá er ekki, enn og aftur, of fast að orði kveðið. Svo skoðar maður textann áfram og hann minnir á texta sem sást í frumvörpum, lagatextum og reglugerðum frá tímum bannáranna, frá haftaárunum, þegar við vorum einhvern veginn að reyna að skilgreina þetta þar. Ég gríp aftur niður á bls. 11, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir:

Flokkur sem ber 130 kr. vörugjald á kíló er að mestu leyti vörur sem innihalda kakó, gjarnan til að gera drykki. Einnig er í flokknum núggatmassi. Innflutningur í þeim flokki var ekki mikill. Svo er haldið áfram að fjalla um það allt saman og stendur í frumvarpinu: Gert er ráð fyrir að tollflokkar beri vörugjald í hlutfalli við þyngd viðbætts sykurs. Þau verða því hærri en nú er ef sykurinnihaldið er yfir 62% en annars munu vörugjöld í þeim flokki lækka frá því sem nú er. Svona er haldið áfram síðu eftir síðu. Ég verð að segja eins og er, þeir sem þurfa að vinna eftir þessu eiga alla mína samúð. Ég tala ekki um aumingja embættismennina sem þurfa einhvern veginn að velta þessu fyrir sér, greiða úr því og úrskurða um hvað er hvað, í hvaða flokki o.s.frv. Það er auðvitað tímabært að við finnum eitthvað annað kerfi, virðulegi forseti, en það sem er hér. Það er víst alveg ábyggilegt.