141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans og yfirferð á frumvarpinu. Þær breytingar sem verið er að gera á leiðbeiningarþjónustunni eru að sjálfsögðu unnar í samráði við Bændasamtökin og bændur og verið er að breyta þessu, eins og ég segi, með samþykki þeirra.

Ég kem hingað upp til að fagna því sérstaklega að verið sé að reyna að bregðast við þeim áföllum sem urðu vegna þess veðurs sem skall á síðasta haust. Við getum síðan haft alls konar skoðanir á því hvort bætur séu nógu háar eða ekki. Við verðum þó að hafa í huga að fordæmi eru fyrir því að greiða bætur og þá um leið voru sett ákveðin viðmið, það þarf því væntanlega að taka mið af því.

Maður veit svo sem að bændum sýnist eitt og annað um þær bótafjárhæðir sem koma en ég ítreka að væntanlega er verið að fylgja viðmiðum eða fordæmum sem voru sett og þá verða bætur trúlega framreiknaðar miðað við þær bætur sem voru greiddar þegar eldgosin voru og öskufallið á Suðurlandi. Það væri ágætt ef einhver ráðherra gæti í lokaræðu sinni staðfest hvort að svo sé.

Mig langar aðeins að nota tækifærið og nefna að mikilvægt er að við horfum á landbúnaðinn eins og aðrar greinar þar sem eru tækifæri í nýsköpun og þróun. Við þurfum að sjá til þess að rannsóknir og þróun í landbúnaði, hvort sem það er búfjárrækt eða jarðrækt, verði stöðug og öflug því að eingöngu þannig getum við haldið eða horft held ég til framtíðar og staðið við stóru orðin eða þær hugmyndir sem við höfum um Ísland og getu Íslands til að framleiða matvæli. Forsenda þess er að við getum þróað greinina áfram og þar af leiðandi verðum við að finna leiðir til að auka fjármuni sem renna í nýsköpun og rannsóknir í landbúnaði. Það á ekkert annað að gilda, ég er ekki að segja að annað gildi um þessa atvinnugrein en aðrar þar sem er horft til nýsköpunar, en þarna eru að sjálfsögðu mikil tækifæri í að stækka þá köku sem Ísland á af framleiðslu matvæla í heiminum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, ég er aðallega að koma þessu á framfæri með nýsköpun og þróun og undirstrika það að gott er að verið er að breyta lögum til að hægt sé að greiða þessar bætur. En ég ítreka að það væri ágætt að heyra ef hæstv. ráðherra gæti í lokaræðu sinni á eftir upplýst um hvernig þær fjárhæðir eru til komnar sem á að greiða en að öðru leyti hef ég ekki meira um þetta að segja, frú forseti.