141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

almannatryggingar.

495. mál
[13:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er útséð um að það takist að ná fram bráðnauðsynlegum breytingum á stöðu öryrkja, sérstaklega í mati á örorkunni, nú eru allir öryrkjar metnir 75% eða meira. Þeir sem fá 74% mat fá mjög óverulegan lífeyri þannig að endurhæfing er mjög vandmeðfarin í slíkri stöðu. Að því gefnu að menn hafi ekki náð þeirri lausn sem ég tel vera mjög brýnt að ná sem allra fyrst, að tekið sé upp stigbreytilegt eða stigvaxandi örorkumat, styð ég þessa breytingartillögu og tel hana vera bráðnauðsynlega. En ég legg áherslu á að menn vinni áfram að því að ná fram breytingu á framfærslustyrknum, sem hæstv. ráðherra tilkynnti að væri von á, og eins að meta, og alveg sérstaklega, vinnugetu öryrkja þannig að þjóðfélagið nýti þá getu sem öryrkjar hafa en líti ekki alltaf á vangetuna.